137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:58]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Ræða hennar var mjög málefnaleg, mjög vel uppbyggð og full af rökum í þágu íslensks metnaðar og íslensks sjálfstæðis.

Sjálfur hef ég notið þeirra sérréttinda að vera alinn upp af þjóðerniskommúnistum, sósíalistum og forhertum sjálfstæðismönnum og samvinnumönnum. Sagt er að fjórðungi bregði til fósturs svo maður á að hafa nokkuð víðtæka reynslu í því að meta hluti út frá því.

Fyrst og fremst er það dugmikið fólk með hlýtt brjóstvit og þroskaða eðlisgreind sem hefur lagt á ráðin hjá flestum Íslendingum í uppeldi þeirra og út frá því hljótum við að taka í rauninni sömu afstöðu og hv. þingmaður gerði í ræðu sinni áðan.

Hv. þingmaður býr auðvitað yfir reynslu skákmeistarans sem fyrst og fremst er snjall skákmaður af eigin verðleikum. Ísland er á sinn hátt í dag í stöðu skákmeistarans og verður sækja fram á eigin verðleikum. Þeir verða aldrei metnir okkur í hag í Brussel, það vitum við. Vegna smæðar okkar skiptir það ekki máli á þeim búgarði. Þess vegna fagna ég þessari ræðu. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það er óheyrilega óhóflegur verðmiði í öllum skilningi sem er settur fram í framgangi þessa máls og með ákveðinni valdbeitingu sem er einstæð í hlutum sem varða sjálfstæði og fullveldi Íslands. Það er eins og hv. þingmaður sagði, það er um að ræða óumdeilanlegt afsal á sjálfstæði Íslands.