137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:03]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er án efa sammála mér um þá er það þannig að þetta Evrópusambandsmál, evrumál, þessi umræða er búin að yfirtaka samfélagið í opinberri umræðu síðustu missiri og það er að mínu mati að verða sjálfstætt vandamál í því að leysa hin raunverulegu vandamál sem liggja fyrir. Þess vegna er það sem ég segi að þótt ég sé svo andsnúin aðild Íslands að Evrópusambandinu sem raun ber vitni þá verðum við að finna einhverja leið til að leiða þetta mál til lykta og það er lýðræðið. Það er þess vegna þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sem ég tala um. Augljóslega vegna þess hvernig stjórnarskráin er núna þá er slík þjóðaratkvæðagreiðsla ráðgefandi eðli málsins samkvæmt eins og bara til dæmis þjóðaratkvæðagreiðslan núna áður en við förum í aðildarviðræður. En það hlýtur að vera þannig að kjörnir fulltrúar landsins gefi út sameiginlega yfirlýsingu um að þeir virði þjóðarvilja jafnvel þó að samkvæmt stjórnarskránni óbreyttri sé það eðli málsins samkvæmt ráðgefandi.

Er þetta peningasóun? Já, þetta er peningasóun að því leyti að ég er einmitt viss um, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir segir, að þjóðin mun fella þetta, hvort sem það verður gert núna eða síðar. En það er ekki peningasóun að því leyti að við verðum, til þess einmitt að bjarga svo mörgu öðru í okkar samfélagi, að fá lyktir í þetta mál. Það verður að gerast. Annars komumst við ekki hænufet áfram. Það er bara þannig. Fjölmiðlavöldin og gríðarlega sterk hagsmunaöfl í samfélaginu keyra þetta mál afar (Forseti hringir.) grimmt áfram og nú er komið að þjóðinni að segja sitt, hvort hún vilji fara í önnur verkefni brýnni (Forseti hringir.) eða ekki.