137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þingmann á þann hátt að hún sé hér raunverulega að tala fyrir þeirri leið að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna galla á stjórnarskránni og, eins og ég sagði í dag, brots á stjórnarskránni þar sem fullveldisafsalsákvæðið er ekki í stjórnarskránni. Þar með er það bundið í stjórnarskrá að þjóðaratkvæðagreiðsla sem þessi yrði bindandi og þá verður líklega að fara svo að hér verði að fara fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrst ein til að gá hvort við eigum að sækja um aðild. Þar með yrði þing rofið og stjórnarskrárbreyting lögð fyrir, kosið aftur og þá værum við hér með stjórnarskrá sem við gætum farið eftir og þyrftum ekki að brjóta. Þessi er mergurinn málsins og þetta er það sem kemur fram á fylgiskjali VIII í þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir fundinum. Er þetta réttur skilningur, hv. þm. Guðfríður Lilja (Forseti hringir.) Grétarsdóttir?