137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:07]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég tala um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þá er ég einmitt að meina það að mér finnst að þjóðin eigi áður en við leggjum í þetta ferli að greiða atkvæði um það hvort hún vilji það, hvort henni finnist það réttmætt og forsvaranlegt og nógu brýnt á þessum tímapunkti að við leggjum í það ferli.

Ég held að hún mundi segja nei. Ég held, eins og fram hefur komið í ýmsum könnunum, að önnur mál brenni miklu heitar á þjóðinni einmitt núna, miklu heitar. En ef hún sagði já þá yrði auðvitað farið í aðildarviðræður, að sjálfsögðu. Ég lít svo á að ég sé bundin vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem að forminu til sú atkvæðagreiðsla væri ráðgefandi á meðan stjórnarskráin stendur óbreytt eða ekki, eða bindandi.