137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir lögskýringarnar og lagalega hjálp í þessu máli. Þannig er mál með vexti að í vor lagði ég ofuráherslu á að menn breyttu 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að í stað þess að þjóðin ætti að greiða atkvæði um það í lok kjörtímabils að þá yrði hægt að fá fram breytingar á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu sem yrði þó að hafa mjög háan þröskuld að mínu mati. Ég hefði viljað hafa þröskuldinn 50%, þ.e. að 50% kjósenda þyrftu að samþykkja stjórnarskrárbreytingu vegna þess að ég tel að stjórnarskrárbreytingar eigi að vera mjög þungar, (Gripið fram í.) tregar. Svo var það spurning hverjir ættu að geta krafist stjórnarskrárbreytingar, til dæmis helmingur eða meiri hluti Alþingis, til dæmis góður hluti kjósenda og svo framvegis.

Þetta var ekki gert því miður og nú sitjum við uppi með að stjórnarskránni verður ekki breytt nema í lok kjörtímabils eða þá að um leið og búið er að samþykkja breytingar á stjórnarskránni þá þarf að rjúfa þing. Það eru menn kannski ekkert voðalega æstir í í núverandi stöðu. Við höfum hreinlega ekki efni á því að halda kosningar núna, Íslendingar, nýkomnir úr kosningum. Það að missa af þessu tækifæri í vor gerir það að verkum að allt ferlið verður núna miklu erfiðara. Því miður sé ég ekki lausn á þessu. Það er dálítið hastarlegt að þeir þingmenn sem kannski töluðu mest um stjórnarskrána og mannréttindi og annað slíkt fyrir nokkrum árum í kjölfar kvótadómsins og öryrkjadómsins skuli hugsanlega jafnvel sjálfir standa nú að því að brjóta stjórnarskrána, og þá segi ég, ef þetta er brot á stjórnarskránni.