137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og skelegga ræðu. Það kom skýrt fram í ræðu hv. þingmanns að þegar við stjórnarmyndunina lýsti hún því yfir að hún mundi ekki styðja þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið skilningur hennar á þeim tíma að það væri með einhverjum hætti skilyrði Samfylkingarinnar fyrir stjórnarsamstarfinu að þrátt fyrir afstöðu einstakra þingmanna mundi Vinstri hreyfingin – grænt framboð tryggja að málið næði fram að ganga og næði í gegn. Í umræðunni hefur komið fram mismunandi skilningur á þessu og þó að ég vilji kannski ekki fara langt í að hnýsast í innanflokksmál þá varðar þetta stjórnarsamstarfið. Það hefur komið fram t.d. af hálfu t.d. hæstv. forsætisráðherra að hún telur að komin væri upp ný staða í stjórnarsamstarfinu ef þessi tillaga nær ekki fram að ganga. Hún hefur jafnframt sagt að hún voni að atkvæðagreiðslan um málið fari á þann veg að ríkisstjórnin geti starfað áfram. Þess vegna vildi ég vita ef hv. þingmaður gæti upplýst mig um það hvort það hafi verið með einhverjum hætti frá því gengið milli stjórnarflokkanna svo hún viti til að þrátt fyrir afstöðu einstakra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri það tryggt að VG mundi tryggja að málið næði í gegn.