137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hygg að sá skilningur sem kemur fram í máli hv. þingmanns sé svipaður og hefur komið fram í ræðum ýmissa annarra hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessari umræðu. Ég hlýt þó að vekja athygli á því að innan Samfylkingarinnar virðist vera einhver annar skilningur á þessu máli því að ekki er hægt að skilja orð hæstv. forsætisráðherra og eftir atvikum annarra talsmanna Samfylkingarinnar í málinu nema á þann hátt að þeir telji að stjórnarsamstarfinu sé ógnað ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð klárar ekki málið, hjálpar ekki Samfylkingunni við að koma þessu máli þannig í gegn að þetta helsta stefnumál Samfylkingarinnar árum saman verði að veruleika.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ef hún svo kýs þá væri ég líka forvitinn að vita hvort hv. þingmaður hefur mótað sér afstöðu til þeirra breytingartillagna sem komið hafa fram við þessa umræðu, m.a. um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.