137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni mjög góða og einlæga ræðu. Hún lýsti jafnframt þeim vandkvæðum og þeim sársauka sem mér finnst ég skynja hjá mörgum hv. þingmönnum Vinstri grænna. Þeir unnu kosningasigur núna í vor á grundvelli þess að þeir lofuðu kjósendum að berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og voru sá flokkur sem vann mestan sigur. Síðan taka þeir þátt í samstarfi sem í rauninni ýtir þeim alltaf lengra og lengra í þá átt sem þeir vilja kannski ekki endilega fara. Ég nefni samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ég nefni samningana um Icesave o.s.frv., allt saman hlutir sem hv. þingmenn Vinstri grænna eru ekki sérstaklega sáttir við eða ánægðir með.

Nú liggur fyrir aðildarbeiðni að Evrópusambandinu, það á að senda beiðni, bréf til Brussel um að Ísland óski eftir að ganga í Evrópusambandið. Með aðstoð Vinstri grænna gerist það, þ.e. ekki allra en hluta þeirra. Nú er það spurningin hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér ef það skyldi gerast að við sæktum um aðild, fengjum samning með einhverju tímabundnu 20 ára leyfi til að veiða fisk o.s.frv. Svo yrðu greidd atkvæði um þennan samning og þá færi öll áróðursmaskína Evrópusambandsins í gang sem við þekkjum, hefur ómælt fé sem enginn Íslendingur eða íslensk samtök geta staðið gegn og þetta yrði samþykkt. Og það gerist með hjálp þingflokks Vinstri grænna því að nokkrir munu hafa lýst því yfir að þeir muni greiða þessu atkvæði. Hvað finnst hv. þingmanni um þessi örlög?