137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða þetta mikilvæga mál enda að mörgu að hyggja, margir fletir sem hafa komið upp og ég sé að nú er í salnum hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem hefur stýrt fundum utanríkismálanefndar. Hann var ekki í salnum um daginn þegar ég var hrósa honum. Sumir sögðu eftir á að ég hefði gert það of mikið, hann hefði fengið of mikið lof en menn verða að eiga það sem þeir eiga. Hann hefur stýrt þessari nefnd með miklum ágætum og vinnunni allri og þess vegna segi ég: Það er tvímælalaust þannig að málið allt hefur batnað enda var það vanbúið frá upphafi. Það er þyngra en tárum taki að sjá hversu grátt Samfylkingin er að leika samstarfsflokk sinn í þessu máli öllu. Sama hversu keikir og glaðir menn geta verið alla jafnan þá er svolítið sorglegt að horfa upp á þá kúgun sem á sér greinilega stað á milli stjórnarflokkanna. En gott og vel. Ég ætla ekki að fara mikið út í það.

Við erum að ræða um það hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég sagði það við fyrri umr. að ég leyndi því ekki að ég teldi það rétt og hef sagt það mörgum sinnum áður, m.a. á stórum fundi hjá Viðskiptaráði í vor. Þá hnykkti ég enn frekar á því sem ég hef lengi talað um og það er tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er ekki eitthvað nýtilkomið, tilkomið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins til að tefja þetta mál, alls ekki. Ég talaði um það á fundi í Viðskiptaráði að við ættum að sækja um en við ættum að spyrja þjóðina í þessu stóra og mikla máli. Þetta er stórt mál og það er mikið skref að taka að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara í viðræður, viðræður sem við vitum vissulega að hluta til hvernig muni fara en ekki að öllu leyti. Það er mikilvægt að hafa þjóðina með í ráðum þegar um svona stórt mál er að ræða og þjóðin vill, og við vitum það ekki síst á þessum tímum, þá vill þjóðin fá í ríkari mæli að taka þátt í ákvörðunarferli, vera þátttakandi í því að móta eigin framtíð, vera með. Það er ótrúlegt að heyra þann málflutning, m.a. frá hv. þm. Helga Hjörvar, að segja að þetta verði þá bara þjóðaratkvæðagreiðsla um þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst það ákveðin lítilsvirðing gagnvart kjósendum að treysta þeim ekki til að taka afstöðu í því hvort eigi að sækja um eða ekki.

Hér er í salnum hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem m.a. lýsti því yfir á fundum nefndarinnar að auðvitað væri betra ef meiri samstaða væri um málið, það væri betra og hann staðfesti það líka hér að það væri betra að sem breiðust samstaða væri um þetta mál. Ég er honum sammála en ég lýsi allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og fyrst og fremst Samfylkingunni í þessu máli öllu, á hendur forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem leiðir þessa ríkisstjórn, þessa nýju ríkisstjórn sem var fyrst og fremst mynduð vegna nýrrar verkstjórnar. Þetta er hörmuleg verkstjórn. Í hverju málinu á fætur öðru er verið að kasta handsprengjum inn á öll svæði. Það er ekki reynt að sætta aðila, sætta sjónarmið inni á Alþingi og biðja um það að við sameinumst um aðferðafræðina, við sameinumst um leikreglurnar þótt við séum ósammála innan dyra um markmiðin á endanum. Það skiptir svo miklu máli að sá sem fer með þessa blessuðu verkstjórn, forsætisráðherrann sjálfur, haldi utan um hópinn, haldi utan um Alþingi Íslendinga í samvinnu við okkur, í samvinnu við forseta þingsins og sameinist um þær leikreglur sem lagt er upp með í þessu mikla máli, þessu tilfinningalega máli því tilfinningarnar munu skipta okkur miklu máli þegar og ef farið verður út í aðildarviðræður við ESB. Það eru röksemdir byggðar á tilfinningalegum rökum sem við munum hlusta á, verðum að hlusta á. Þess vegna er sárt að horfa upp á það hvernig ríkisstjórnin fer fram í hverju málinu á fætur öðru í máli sem ég er sannfærð um að hægt væri að ná meiri samstöðu um varðandi aðferðafræðina alla.

Af hverju erum við að tala um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég sagði það í fyrri ræðu minni að það er eðlilegt, ég hef lengi haldið þessu fram, það er eðlilegt í þessu stóra máli því að það eitt að viðurkenna það að fara í aðildarviðræður við ESB þá erum við að viðurkenna að við erum reiðubúin til að ræða það að afsala okkur fullveldi á ákveðnum sviðum. Það eitt út af fyrir sig rökstyður það að við eigum að leita til þjóðarinnar, biðja hana um að vera með okkur í þessu máli, biðja hana um að vera með okkur frá upphafi til enda. En eins og alltaf er lagt af stað, málið ekki hugsað í þaula af hálfu Samfylkingarinnar og síðan er látið reka á reiðanum. Þingmenn stjórnarflokkanna kveljast hér, þeim er ýtt út í horn, sagt hvað þeir eigi að gera, allt til þess eins að ríkisstjórnin haldi. Það er vont að sjá þessi vinnubrögð sem við hefðum átt, sama í hvaða flokki við erum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, við hefðum átt að vera búin að læra af reynslunni og við eigum að breyta vinnubrögðum í þinginu, við eigum að gera það. Ég lít líka til okkar sjálfstæðismanna, það er líka þannig. Þetta mál er svo mikilvægt, við verðum að hafa þjóðina með okkur. Þess vegna er svo sárt að horfa upp á þetta.

Ég talaði um þetta fyrsta skref, það eitt að við erum reiðubúin til að afsala okkur fullveldi á ákveðnum sviðum. Það réttlætir tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og tillaga okkar sjálfstæðismanna felst í því. Ekki að tefja málið, við gætum haft hana strax, án tafar, svo fljótt sem auðið er innan þriggja mánaða. Það sjá allir að það er ekki til að tefja málið. Það á ekki að flækjast fyrir Svíunum sem allir eru að stóla á í þessu sambandi, sem verða í formennsku í Evrópusambandinu þótt við sendum inn umsóknina, þ.e. ef hún verður samþykkt, innan þriggja mánaða. Þannig er það.

Í öðru lagi: Ríkisstjórnin er klofin, það er ekki samstaða um þetta mál á þinginu. Það læðist stundum að manni sá grunur að lagt hafi verið af stað með það í huga að efna sérstaklega til ófriðar í þessu máli. Af hverju? Af hverju þurfa menn að efna til ófriðar? Venjulegir sómakærir menn, heiðvirðir og góðir. Það á ekki að þurfa. Menn þurfa að vera stórhuga. Það var ríkisstjórnin ekki með Samfylkinguna í broddi fylkingar. Hún þarf að sýna reisn, það hefur hún ekki sýnt í þessu máli. Hún þarf að sýna raunverulegan vilja til samstöðu meðal þingmanna og meðal þjóðarinnar til að ná niðurstöðu í þessu máli því það þarf að útkljá.

Síðan hefur kostnaðarmatið komið fram í meðförum nefndarinnar og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur komið mjög skilmerkilega inn á það. Það eitt að setja milljarða í þetta ferli nú þegar við stöndum frammi fyrir miklum niðurskurði í ríkisfjármálum og verulegum skattahækkunum tel ég mikilvæg rök fyrir því að þjóðin fái að taka þátt í þeirri ákvörðun. Það er viðbótarröksemd við þá upphaflegu sem ég taldi fram á sínum tíma. En þessi ríkisstjórn leyndarhjúps, ríkisstjórn leyndarmálanna hinna stóru setur ekki fram skýrslur í málum eins og best sést í Icesave-málinu því skýrslur sem eru óþægilegar megum við ekki sjá. Nú síðast í dag var það skýrsla á vettvangi landbúnaðarmála sem átti að sussa niður. Ef það hefði ekki verið fyrir atorku okkar í stjórnarandstöðunni þá hefðu við ekki fengið að sjá þessa skýrslu, það er bara þannig. En það er vel og ég vil þakka í leiðinni fyrir þau viðbrögð af hálfu hæstv. utanríkisráðherra að hann lét birta þau í dag eða ætlaði að gera það í dag á heimasíðunni. Það er gott að menn bregðist við en ég vil sjá að menn sýni frumkvæði í þessu máli, menn sýni það raunverulega í vinnubrögðum sínum að þeir vilji eyða tortryggni, ekki ala á tortryggni, menn vilji eyða óvissu en ekki ala á óvissu. Þannig eiga vinnubrögðin ekki að vera.

Það sýnir best hversu mikið offors er í þessu máli öllu að við erum að ræða það núna á löngu sumarþingi. Inn í það blandast náttúrlega Icesave-málið. Við sjálfstæðismenn sögðum það strax 1. febrúar þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum, þ.e. fyrst minnihlutastjórn og síðan meirihlutastjórn, að við mundum hleypa öllum góðum málum í gegn og styðja þau og það höfum við gert. Við komum fram með rökstuddar tillögur í t.d. stjórnarskrármálinu þar sem við lögðum fram tillögu um að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar, breytingarákvæðinu á stjórnarskránni. Því var hafnað af hálfu stjórnarmeirihlutans af því að tillagan kom frá okkur sjálfstæðismönnum. Það mátti ekki samþykkja þessa tillögu af því að hún kom frá okkur sjálfstæðismönnum. Þannig var barnaskapurinn svo yfirgengilegur á vordögum en í dag sjá menn miklu betur og átta sig á því að menn hefðu betur tekið í okkar útréttu sáttarhönd á vordögum. Það var ekki gert, ekki frekar en í öðrum stórum málum í þinginu. Við eins og margir aðrir í samfélaginu erum einfaldlega að heyra eitthvað í fjölmiðlum, lesa um eitthvað í fréttatilkynningum en fáum ekki að vera raunverulegir þátttakendur í því að taka stórar ákvarðanir, þrátt fyrir ágætisvinnubrögð í hv. utanríkismálanefnd.

Þannig er það, frú forseti, að það sem einkennir þetta mál allt, mál sem ég hefði viljað sjá njóta framgangs í ákveðinni sátt, breiðri sátt milli stjórnmálaflokka varðandi aðferðafræðina, varðandi leikreglurnar sem ég nefndi áðan um það hvernig við eigum að nálgast hugsanlegar aðildarviðræður ESB, sú sátt hefur ekki náðst. Það ósætti er á ábyrgð Samfylkingarinnar og það er enginn annar flokkur sem ber ábyrgð á því ástandi sem núna er í þinginu. Svo eru menn að tala um ný vinnubrögð. Það er ákall um ný vinnubrögð innan þingsins en þegar reynir á bregst Samfylkingin í því máli öllu.

Ég talaði um að mikilvægt væri fyrir okkur að fara leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu, að þjóðin hefði upphafsorðið en líka lokaorðið. Ég fór nokkuð vel yfir það að mínu mati í fyrri ræðu og ætla ekki að endurtaka það mikið hér nema um aðferðafræði ríkisstjórnarinnar um að það verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég bind að sjálfsögðu vonir við það að þegar þar að kemur og ef það verður samþykkt í þinginu að fara leið ríkisstjórnarinnar, þá verði raunverulega hlustað á þjóðina, ríkisstjórnin leggi sig fram um samvinnu og samstarf við þingið, meira en meirihlutaálit utanríkismálanefndar kveður á um, að ríkisstjórnin leggi sig fram um það að vera í meira samráði og samstarfi við þingið og þjóðina í öllu máli á öllum stigum þess. Það skiptir miklu máli en aðferðafræði ríkisstjórnarinnar um að þjóðaratkvæðagreiðslan um samninginn, ef þau drög koma heim, verði bara ráðgefandi, styður í rauninni líka tillögu okkar sjálfstæðismanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrsta tillagan eða uppleggið hjá ríkisstjórninni er eingöngu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess þá heldur að hafa þjóðina með í byrjun. Þess vegna spyr ég: Hvernig er ef menn ætla að segja nei við tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu, ef Samfylkingin ætlar að segja nei, við treystum ekki þjóðinni til að taka þessa ákvörðun af því að þetta er svo rosalega flókið, það erum bara við stjórnmálaflokkarnir sem getum tekið þessa ákvörðun af því að þetta er bara atkvæðagreiðsla um atkvæðagreiðslu. Þetta er náttúrlega reginfirra. Ef Samfylkingin og Vinstri grænir eftir atvikum ætla að segja nei við tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu þá geta þeir ekki að mínu mati sagt nei við annarri tillögu okkar sem er bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Þeir verða að tryggja það að þjóðin hafi þetta lokaorð fyrst þeir eru á móti því að þjóðin hafi upphafsorðið þannig að það skiptir máli í þessu sambandi.

Ég fór í fyrri ræðu minni líka yfir kosti og galla Evrópusambandsins og ég vil ítreka það og bendi á það sem ég sagði þá. Ég held að það skipti máli að halda því til haga að það eru vissulega margir gallar á Evrópusambandinu, hugsanlegri aðild, fyrst og síðast sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin. Við verðum að vera verulega á varðbergi í slíkum samningaviðræðum. Það vita allir og ég fagna því sérstaklega að einmitt í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er hnykkt á því hverjir hagsmunir okkar eru. Ég trúi ekki öðru heldur en við höfum sameiginlegan skilning þegar kemur að þessu atriði.

Ég hef nefnt lýðræðishallann sem er náttúrlega stórt mál. En ég dró líka fram kosti Evrópusambandsaðildar sem ekki er hægt að líta fram hjá. Ég tel að það skipti máli fyrir okkur að hafa aukið val, aukin tækifæri, ekki síst núna á næstunni og næstu missirum þegar við erum að glíma við margvísleg verkefni til að reisa okkur við eftir þau áföll sem hafa gengið yfir okkur í efnahagslífinu.

Ég óska þess að við fáum frekar tækifæri á næstunni til að ræða um málefni heimilanna, málefni fyrirtækjanna. Á hverjum degi berast okkur fréttir um að fólk fái engin svör, það séu engar lausnir og verkstjórn þessarar ríkisstjórnar hafi ekki dugað. Ég spyr: Hvernig verður þetta á haustmánuðum? Umsókn um aðild að Evrópusambandinu mun ekki svara þessu fólki, þessu fólki sem fær ekki nein svör við sínum vandamálum, bæði hversdagslegum en líka í atvinnulífinu. Þá dugar ekki að segja: Kæru vinir. Við erum farin af stað í aðildarviðræður. Þá fer það ferli af stað. En þá verða menn að koma með raunhæfar lausnir, lausnir til að ýta af stað fyrirtækjunum, taka stórar ákvarðanir til að ýta þeim af stað, til þess líka að Seðlabankinn geti farið að lækka vexti enn frekar og starta þessu öllu saman upp á nýtt. Þessi leið leysir ekki þann vanda sem blasir við heima. Við þurfum að leysa vandamálin næstu fimm árin á okkar eigin forsendum, með okkar eigin gjaldmiðil. Það er ekki hægt að hlaupa undir pilsfald Evrópusambandsins á næstu fimm árum og benda á að þetta allt muni leysast. Það er ekki þannig. Ég tel hins vegar mikilvægt eins og ég gat um áðan að við sjáum fram á aukna valkosti í framtíðinni. En aðferðafræði ríkisstjórnarinnar gerir okkur sem höfum verið eindregnir talsmenn þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu mjög erfitt um vik. Og það er allt vegna þrákelkni eins flokks sem hefur ekki stórhug, hefur ekki metnað til að reisa sig upp úr þessu öllu saman og fá fólkið, þingmennina og þjóðina til liðs við sig til að tala saman og ákveða hvernig við nálgumst þetta stóra og mikilvæga mál.

Frú forseti. Þessi umræða mun örugglega vara nokkuð lengur núna fram eftir kvöldi. Mér skilst að náðst hafi ákveðið samkomulag um að þetta mál verði rætt í fyrramálið fyrir hádegi frá 10–12 og síðan verði atkvæðagreiðsla. Ég vonast til þess að menn sjái að sér í ríkisstjórninni, stjórnarmeirihlutanum og samþykki tillögu okkar sjálfstæðismanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekkert erfitt, þetta er ekkert flókið. Málið snýst á endanum um að þjóðin fái að vera með í ráðum. Flóknara er það ekki. Það er ekkert flóknara en það. Þess vegna vonast ég til þess, því það er mikilvægt að ná sáttum í stóru málunum bæði inni á þingi og úti í samfélaginu, að menn sameinist um tillögu okkar til að við getum farið samhent hugsanlega í þessar viðræður, sýnum þessa samheldni sem óskað var eftir m.a. af hálfu utanríkisráðherra í utanríkismálanefnd. En menn verða þá líka að átta sig á því að til að ná samstöðu verða menn að rétta út ákveðna sáttarhönd, þá verða menn að sýna fram á það að þeir vilji raunverulega sátt. Það þýðir ekki að koma hingað upp í stólinn og segja að þingið eigi að hafa allan tíma til að fara gaumgæfilega ofan í kjölinn á öllum gögnum sem liggja fyrir nefndinni, hvort sem það er í þessu máli eða Icesave og meina síðan ekkert með því.

Ég óska eftir því að ríkisstjórnin og þá sérstaklega Samfylkingin sýni meiri sáttfýsi, hætti allri óbilgirni varðandi aðferðafræðina í þessu mikilvæga máli því óbilgirni Samfylkingarinnar er gersamlega að klúðra þessu máli.