137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nú erum við að sjá fyrir endann á því leikriti sem umræðan er um tillögu um að ríkisstjórninni verði heimilt að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir hönd Íslendinga. Ég segi, virðulegi forseti, og ég held að það væri ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra mundi nú hlusta, að þetta sé leikrit en í stuttu máli gengur þetta út á það að hér er verið að uppfylla helsta og kannski eina raunverulega stefnumál Samfylkingarinnar sem er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Allt annað, virðulegi forseti, er bara aukaatriði í þessu máli.

Það má þó segja að ákveðnir hlutir hafi komið fram í umræðunni sem segir okkur að augu margra eru að opnast. Þá er ég sérstaklega að vísa til Borgarahreyfingarinnar sem hefur bent á hin augljósu tengsl sem eru á milli annars stórs máls sem er núna í umræðu í þinginu, sem er Icesave, og Evrópusambandsins. Ég held að öllum sé að verða ljóst sem vilja opna augun að hér hefur Samfylkingin spilað miklu stærra hlutverk en hefur verið í umræðunni. Af miklum klókindum og í klækjastjórnmálum hafa þeir hent Icesave-málinu öllu í fangið á hæstv. fjármálaráðherra en þegar við skoðum þetta mál sjáum við að ástæðan fyrir því að við erum hérna á miðju sumri ekki að fara í bráðaaðgerðirnar sem lofað var, ekki núna í sumar heldur lofað í febrúar, ekki að taka á vanda heimila og fyrirtækjanna heldur að ræða þetta mál, virðulegi forseti, er sú að þetta snýst bara um hagsmuni Samfylkingarinnar.

Ástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að fyrir mánuði síðan, að því er virtist í miklu óðagoti, að Icesave-samningarnir voru kláraðir (Gripið fram í.) á tveim dögum, virðulegi forseti, eftir að hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í þinginu að samningaviðræður væru ekki byrjaðar, er sú að það þurfti að klára þetta mál vegna þess að það var að þvælast fyrir stefnumáli Samfylkingarinnar, eina stefnumáli Samfylkingarinnar. Virðulegi forseti. Það er sárt fyrir nýjan þingmann eins og Sigmund Erni Rúnarsson að upplifa þetta en þannig er raunveruleikinn, þannig er þetta. Samfylkingin setur alla aðra hluti og þar með talið hagsmuni Íslands í Icesave-málinu til hliðar til þess að koma þessu eina máli í gegn.

Nú, virðulegi forseti, er ekki nokkur vafi að ef nálgunin hefði verið öðruvísi hefði verið hægt að ná breiðari samstöðu um þetta mál, enginn vafi. Ég held að flestum sem hafa fylgst með þessu hafi komið á óvart hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Á sama hátt munu sagnfræðingar framtíðarinnar velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum gat á því staðið, virðulegi forseti, að á sama tíma og Ísland var í viðskiptastríði við Evrópusambandið sótti Ísland um aðild að Evrópusambandinu. Hvernig gat það verið? Hafið þið einhvern tíma, virðulegi forseti, heyrt um eitthvert slíkt sambærilegt dæmi einhvers staðar í heiminum? Enn og aftur, ef við vísum ekki bara í fortíðina heldur í það sem er að gerast núna þá er það svo, virðulegi forseti, að Króatía sótti um aðild að Evrópusambandinu. Sökum þess að þeir voru með annað deilumál, sem er örugglega smávægilegt í samanburði við það sem við erum að eiga við sem er Icesave þar sem við erum beitt órétti af hálfu Evrópusambandsins og forusturíkja þeirra, þá sagði Evrópusambandið þegar þeir komu til samningaviðræðna: Farið þið heim. Það hvarflaði ekki að Evrópusambandinu að ræða við Króatíu á meðan deilumálið var óleyst.

Við erum að gefa þau skilaboð þegar við samþykkjum hér, sem er búið að semja um af hálfu stjórnarflokkanna, að ríkisstjórnin sæki um aðild að Evrópusambandinu, við erum að segja: Okkur finnst í fínu lagi hvernig þið komið fram við okkur í Icesave. Við erum alveg tilbúin til þess að láta það ganga yfir okkur. Það eru skilaboðin sem við erum að gefa.

Virðulegi forseti. Ég man eftir því að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna, sagði í umræðuþætti í sjónvarpinu fyrir kosningar (PHB: Hann sagði svo margt.) að Vinstri grænir væru staðfastur flokkur. Virðulegi forseti, ég held að það sé alveg rétt. Ég held að Vinstri grænir hafi verið mjög staðfastir í því að gefa eftir í öllum sínum stefnumálum.

Það sem við munum sjá gerast á morgun, virðulegi forseti, er að búið er að telja út og þrátt fyrir að nokkurn veginn hver einasti þingmaður Vinstri grænna sem hér hefur komið hafi talað gegn aðild að Evrópusambandinu, sumir hraustlegar en aðrir, þá er búið að telja út þannig að það passi. Þetta er ákveðið leikrit og Samfylkingin fær það sem Samfylkingunni var lofað. Vinstri grænir munu, með nýju héraðshetjuna, hv. þm. Ásmund Einar Daðason, geta sagt: Það var bara fullt af þingmönnum sem voru ofsalega mikið á móti þessu, það var bara fullt af þeim sem bara stóðu við það sem þeir lofuðu. Sjáið þið hv. þm. Ásmund Einar Daðason, hann fór í heyskap. En það voru ekkert bara sumir, það voru allir þingmenn Vinstri grænna sem sögðu, og sérstaklega formaður þeirra, að það kæmi ekki til greina, virðulegi forseti, það kæmi ekki til greina að fara í Evrópusambandið eða sækja um aðild. (Utanrrh.: Þú sagðir það nú líka einu sinni, svo skiptir þú um skoðun.)

Virðulegi forseti. Það sýnir svart á hvítu að allt sem ég hef sagt er satt og rétt þegar hæstv. utanríkisráðherra er farinn að ókyrrast í salnum, því að það gerir hæstv. utanríkisráðherra alltaf þegar honum finnast ræðurnar vera óþægilegar og koma illa við kaunin á Samfylkingunni og honum sjálfum. (VigH: Rétt.) (SER: Rangt.)

Á morgun sjáum við því þetta leikrit og það er ekki í fyrsta skipti sem við fáum að sjá það. Gallinn við þetta leikrit allt saman er það (Utanrrh.: Enginn leikstjóri.) að hér erum við ekki að tala um að menn séu að gæta hagsmuna Íslendinga, þannig er því nú bara fyrir komið. (Utanrrh.: Hver er höfundurinn?) Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra kallar fram í glaðhlakkalega: Hver er höfundurinn? Virðulegur forseti. Það er örugglega hæstv. utanríkisráðherra, alveg örugglega. Ég sé bara á andliti hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) að hann er gríðarlega glaður með að vera búinn að loka pakkanum og sér fyrir endann á leikritinu. (Gripið fram í.) Og þó svo að það sé kannski ekki alveg í samræmi við hagsmuni okkar Íslendinga getur maður samt glaðst yfir því litla sem er gleði hæstv. utanríkisráðherra.

Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að ef menn svona í fullri alvöru skoða málflutning og hlusta á málflutning stjórnarliða hafa menn í fullri alvöru sagt: Eina leiðin fyrir Íslendinga til að vita hvað er í þessu Evrópusambandi er að sækja um aðild. Væntanlega vegna þess að við erum fyrsta ríkið sem sækir um aðild að Evrópusambandinu. (Utanrrh.: Hvenær gekkst þú í heimastjórnarflokkinn?) Væntanlega vegna þess að það hefur aldrei gerst áður að nýtt ríki hafi verið tekið inn. En það er nú þannig, virðulegi forseti, svo ég geti lesið það einu sinni enn, að þetta ferli hefur farið í gang hvað eftir annað, er vel þekkt og hefur verið stúderað af hinum ýmsu, bæði fræðimönnum, fréttamönnum og öðrum. Mér finnst Auðunn Arnórsson, sem skrifaði bókina Inni eða úti? Aðildarviðræður við Evrópusambandið, sem er gefin út af Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki, orða þetta ágætlega. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Séð frá bæjardyrum Evrópusambandsins snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins.“

Ég endurtek: „innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins“.

Svo segir hér, virðulegi forseti:

„Í reynd er þó alltaf eitthvert svigrúm til að sýna sveigjanleika;“ — alltaf svigrúm til að sýna sveigjanleika — „oft er samið um sérstaka aðlögun að tilteknum reglum ESB, tímabundnar undanþágur og sérlausnir.“ — Tímabundnar undanþágur og sérlausnir. (Utanrrh.: Og sérlausnir sem ekki eru tímabundnar.)

Virðulegi forseti. Ég held í fullri alvöru, að hæstv. utanríkisráðherra, þó að hann sé byrjaður að kalla svona mikið fram í — sem ég fagna — að hann trúi ekki alveg því að nokkur trúi honum þegar sjálfur hæstv. utanríkisráðherra lætur að því liggja að við höfum bara ekki hugmynd um hvað komi úr pakkanum. (Utanrrh.: Lestu ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins.) Þetta sé svona sem kallað er á ensku „window shopping“, og hér komi hæstv. utanríkisráðherra: Vitið þið hvað, við fengum bara alveg frábært, þetta er bara allt öðruvísi en allir hinir, ha, bara alveg stórkostlegt, við vorum svo heppin. Þeir voru í svo góðu skapi í ESB. (SER: Þið viljið ekki einu sinni skoða gluggann.)

Eini gallinn, virðulegi forseti, — ég fyrirgef hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni af því að hann er nýr hér og kannski ekki búinn að lesa þessar bækur og tala við þá aðila sem ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur gert og er búinn að kynna sér þetta til áratuga og veit nákvæmlega og væri miklu heiðarlegra af hæstv. utanríkisráðherra að segja: Ég átta mig alveg á hvað felst í því að fara í Evrópusambandið. Það er Evrópusambandið. Og ég segi sem svo að það eru fleiri kostir en gallar. Það er miklu heiðarlegri nálgun í staðinn fyrir í fullri alvöru að reyna að sannfæra menn um það: Við ætlum að setja einn, tvo milljarða í svona „window shopping“. (Utanrrh.: Fullt af göllum, við vitum það.) Virðulegi forseti, það er rosalega dýr verslunarferð þar sem menn í fullri alvöru ætla jafnvel ekki að kaupa neitt. Einn til tvo milljarða.

Hér hafa fagráðherrar, virðulegi forseti, Vinstri grænna komið og talað á þessum nótum. Það er algjörlega ljóst að þessir fagráðherrar geta ekki kvartað undan niðurskurði. Þeir geta ekki komið hér og kvartað undan niðurskurði (Utanrrh.: Ég geri það ekki heldur.) því að þeir voru tilbúnir til þess að setja einn til tvo milljarða í þessa verslunarferð.

Nú er það bara þannig, svo að því sé algjörlega til haga haldið, að ég ber alveg virðingu fyrir þeim sem telja hagsmunum Íslands betur borgið innan Evrópusambandsins. En ég ber enga virðingu fyrir því þegar menn sem vita miklu betur koma hér og tala eins og það sé aldrei að vita hvað er þarna inni, nákvæmlega enga. Ef menn eru fylgjandi því, og margir eru það af hugsjón, þeir telja og þeir hafa trú á Evrópusambandinu, þeir hafa trú á því að þetta sé besta lausnin til framtíðar, en þá eiga menn bara að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir en ekki reyna að setja þetta í einhvern allt annan búning.

Það sem hefur kannski gerst líka, virðulegi forseti, og hefur ekki farið mikið fyrir í umræðunni, þó var hér varaformaður Sjálfstæðisflokksins að fara yfir það ágætlega áðan, að við gætum staðið í þeim sporum, virðulegi forseti, að hér yrði samþykkt að ríkisstjórnin færi með opinn tékka að semja um aðild að Evrópusambandinu og þjóðin fengi aldrei að kjósa um það.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur hvað eftir annað spurt hæstv. fjármálaráðherra út í þetta. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt: Þetta er ekkert vandamál, við verðum með nokkuð sem heitir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. (VigH: Skoðanakönnun.) Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kallar hér fram í: Skoðanakönnun. Það er nákvæmlega það sem það er. Hæstv. fjármálaráðherra sagði: Ég mun sjá til þess að mitt fólk muni bara greiða síðan atkvæði hér á Alþingi eftir því hvernig skoðanakönnunin fer. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason útskýrði fyrir öllum þingheimi og þjóðinni að hann mundi aldrei hlusta á formann sinn í þessu efni, hann mundi aldrei greiða atkvæði með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hæstv. utanríkisráðherra, heyri ég, finnst þetta vera léttvægt. En það er nú þannig og kannski finnst hæstv. utanríkisráðherra það bara léttvægt en í stjórnarskránni stendur að þingmenn séu bundnir af sannfæringu sinni en ekki öðru. Það stendur ekkert í stjórnarskránni að hv. þingmenn séu bundnir af skipunum formanna sinna, bara nákvæmlega ekki einasta orð.

Það er mín trú að í leikritinu sem hér er lagt upp með sé búið að telja þannig út að það verði felld sú tillaga að þjóðin fái að ákveða hvort Ísland fari í ESB eða ekki. Ekki aðeins að það verði felld sú tillaga að þjóðin ákveði hvort við förum í þessa vegferð heldur líka felld sú tillaga að þjóðin ákveði hvort við afsölum fullveldi okkar með þeim hætti sem ríki gera með því að ganga í Evrópusambandið. Þetta, virðulegur forseti, er alvara málsins. Þrátt fyrir að það sé jákvætt að horfa á glatt fólk eins og forustumenn Samfylkingarinnar hér, sem skoppa um alla þingsali hér og þingganga og við höfum ekki séð hæstv. utanríkisráðherra jafnglaðan núna í fleiri, fleiri daga, þá er þetta mál þess eðlis að menn verða að taka það alvarlega, þingmenn verða að taka þetta alvarlega. (Utanrrh.: Utanríkisráðherra er bara lífsglaður að eðlisfari.) Ég fullyrði það, virðulegi forseti, að ef við ætlum að ganga frá þessu máli þannig að þjóðin fái ekki að ákveða það hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki eru menn í besta falli að taka þetta mál ekki alvarlega.

Nú er það auðvitað val Samfylkingarinnar — sem með kúgunum og hótunum og klókindum er búin að snúa Vinstri græna algerlega niður í þessu máli — að fara þannig fram að það var ekki nokkur einasta leið að ná góðri samstöðu um þetta mál. Það er algjörlega á ábyrgð Samfylkingarinnar, það er þeirra val. En ég hvet nú hæstv. utanríkisráðherra, og ég vil nota tækifærið og hvetja hann til þess að fara hér í andsvar, að svara því hvort það sé virkilega svo að hann ætli ásamt sínum flokki ekki að greiða atkvæði með því að þjóðin fái að ákveða það hvort við förum inn í Evrópusambandið eða ekki. (Utanrrh.: Jú, ég ætla að gera það.) Hæstv. ráðherra hefur hér tækifæri til að fara í andsvar og við skulum taka eftir því hvort hann treystir sér í það og svara þessari spurningu þannig að það fari inn í þingtíðindin.

Virðulegi forseti. Galsagangur á oft við. Í þessu tilfelli eru hagsmunirnir meiri og ég hvet stjórnarmeirihlutann, (Forseti hringir.) í þessi tilfelli Samfylkinguna til að í það minnsta að sofa á því hvort (Forseti hringir.) það sé ekki rétt að ganga þannig frá málum að íslenska þjóðin fái að ráða því hvort hún gangi í Evrópusambandið eða ekki.