137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að biðja hv. þingmann afsökunar á því að ég er að eðlisfari lífsglaður maður og það er vor og sumar úti og þó að við ræðum alvarleg mál er það samt sem áður þannig að návistin við hv. þingmann gerir mig glaðan. Þess vegna er ég kátur í dag.

Hins vegar er það algerlega ljóst að það er stefna Samfylkingarinnar, ég held að það sé stefna allra þingflokka sem hér sitja, að það verður íslenska þjóðin sem sker úr um það hvort Ísland, eins og hv. þingmaður sagði, gengur í Evrópusambandið. Það hefur alltaf legið alveg ljóst fyrir að það verður þjóðin sem sker úr um það hvort við göngum þangað inn eða ekki. Það sem mig greinir á við hv. þingmann eftir að hann skipti síðast um skoðun í þessu máli er hvort eigi að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja beri um. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég tel að það skipti máli að niðurstaðan liggi fyrir en jafnframt tel ég að það sé ekki hagfellt fyrir samningshagsmuni okkar að vera búinn að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel sem sagt að svo sé ekki.