137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að kveinka mér yfir því að hæstv. utanríkisráðherra sé orðinn sérstakur fulltrúi skoðana minna en hins vegar, vegna þess að við getum galsast á eftir, en málið er alvarlegt, þá vil ég fá hreint og klárt svar frá hæstv. utanríkisráðherra. Ég er ekki að tala um tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég er að tala um hvort við samþykkjum á morgun að þjóðaratkvæðagreiðsla verði bindandi vegna þess að ef hún er ráðgefandi þá er þjóðin ekki að taka ákvörðun um þetta. Ég bið hæstv. ráðherra vinsamlegast að svara því skýrt hvort það verði ekki örugglega þannig að hæstv. ráðherra ásamt hans flokki muni styðja það að við höfum bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki.