137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr hv. þingmann að þessu er reynsla hans úr þessum geira sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Mér finnst það skjóta svolítið skökku við að núverandi heilbrigðisráðherra skuli tala hér eins og það sé ekkert mál að setja 1 milljarð kr. á tímum þar sem skorið er niður og hjúkrunarheimilum lokað, þar sem skorið er niður í heilbrigðisþjónustunni — við erum stundum í óvissu víða um land, ekki síst kannski á höfuðborgarsvæðinu, um hvernig menn ætla að standa að þessari þjónustu — þá finnst mér mjög sérstakt að ætla að eyða 1 milljarði kr. væntanlega plús einhverju meira í að fara í viðræður sem óvíst er að muni nokkurn tíma skila nokkrum árangri vegna þess að hinn stjórnarflokkurinn er á móti því. Þarna er mjög illa farið með peninga almennings og það hlýtur að vera ábyrgðarhluti að fara fram með þessum hætti.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar varðandi hvað hægt sé að gera fyrir þennan milljarð og mig langar að spyrja hann að lokum hvort hann hefði varið þessum fjármunum öðruvísi.