137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það hvarflaði að mér áðan að koma upp og bera af mér sakir vegna orða hæstv. utanríkisráðherra um hvað fram fór á flokksþingi Framsóknarflokksins. En því miður var hann ekki viðstaddur þar. Ég vil þó segja við hæstv. ráðherra að ég er til í að sitja með honum eitt kvöld og horfa á hið góða flokksþing okkar á vídeóupptöku, bjóða honum upp á popp og kók til þess að (Gripið fram í.) við getum orðið vitni saman að því sem þar fór fram.

Hæstv. forseti. Eins og fram kom áðan þá eru myndbandsupptökur til af þessu fræga flokksþingi sem allir hafa mikinn áhuga á hér. Þar kemur alveg skýrt fram við hvað er átt með þeim skilyrðum og ekki nokkur einasti maður á þessu þingi kemur upp og mælir eitthvað á annan hátt.

Ég ætla ekki að eyða þessum fáu mínútum sem ég á eftir í þetta ágæta flokksþing. Við gerum það upp, held ég bara, innan flokksins eins og vera ber. Ég kem hér upp enn á ný til þess að leggja áherslu á það sem ég hef haldið hér á lofti og það er að það er mikil tímaskekkja og rangt af okkur að vera á þessum tíma nú að samþykkja að fara í eða óska eftir inngöngu í Evrópusambandið. Það sem felst í tillögu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það hafa fleiri þingmenn en ég bent á það að sækja um aðild er annað en að fara í viðræður og ég ætla svo sem ekkert að kafa neitt dýpra í það.

Ég hef þó meiri áhyggjur af öllum þeim vísbendingum, öllum þeim greinum, öllum þeim orðum sem hafa komið fram hjá sérfræðingum, hjá erlendum aðilum og innlendum um hvað sé í hættu fyrir okkar íslenska þjóðarbú ef við höldum í þessa vegferð sem nú er að hefjast. Meðal annars vitnaði ég hér í gær í orð sérstaks ráðgjafa okkar, Evu Joly, þar sem hún talaði um að það væri mjög gott fyrir Evrópusambandið og mikilvægt að komast yfir náttúruauðlindir okkar, íslensku þjóðarinnar. Það er til siðs þessa dagana sýnist mér og heyrist að taka mark á öllu því sem þessi ágæta kona segir og við skulum því væntanlega taka mark á því þegar hún segir, með leyfi forseta:

„Og þeir eiga einnig náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir Evrópu eins og orku og fisk. Þannig að ég tel að það væri mjög gott fyrir okkur — og einnig fyrir þá — að verða hluti af Evrópusambandinu.“

Þetta er ekkert annað en staðfesting á því sem við höfum haldið hér fram að Evrópulöndin, Evrópusambandið, eru í vanda. Þau þurfa að komast yfir orku. Þau þurfa að komast yfir auðlindir okkar sem eru aðallega fiskur og auðlindir í jörðu.

Síðan höfum við hér mikið plagg sem ég sagði í gær að væri alveg ágætlega unnið. Ég ítreka það og þakka þeim sem unnu þetta plagg, þ.e. meirihlutaálitið, fyrir þá miklu samantekt sem er þar. Hins vegar lít eg svo á og endurtek að þessi greinargerð er ekki annað en samantekt að mínu mati á upplýsingum vegna þess að ekki er kveðið sterkt að orði, hvergi í þessari greinargerð. Hvergi eru sett þau skilyrði og fyrirvarar sem ég og fleiri teljum nauðsynlega. Því til stuðnings vil ég benda á að á vefsíðunni bondi.is er af hálfu þeirrar vefsíðu eða fyrir hönd bændasamtakanna farið yfir þetta meirihlutaálit, þ.e. landbúnaðarkaflann og þar kemur berlega í ljós að hann er það almennt orðaður að Bændasamtökin telja að ekki sé gætt að hagsmunum landbúnaðarins í þessari greinargerð.

Það getur vel verið að þeir sem eru fylgjandi því að ganga þennan veg taki ekki mark á okkur þingmönnum sem erum að gagnrýna þetta. En ég hefði haldið að það ætti að taka þó nokkuð mikið mark á þeim sérfræðingum og þeim aðilum sem vinna í þessari grein sem hafa mestra hagsmuna að gæta og skoða þessa hluti út frá því. Það er ljóst að þeir gera kröfu og hafa alltaf gert kröfu um að skýrt verði kveðið að orði um þau skilyrði, þ.e. hverju ekki megi fórna, hvað sé óumsemjanlegt varðandi landbúnaðinn.

Ég vil leyfa mér, eftir að hafa lesið mjög ítarlega í gegnum þessa greinargerð, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur oftar, að segja að það sama á við um alla kafla greinargerðarinnar. Þá komum við að merg málsins, þ.e. hvort við séum tilbúin til þess að skilyrða umboð samninganefndarinnar sem væntanlega mun fara til Brussel og semja fyrir okkar hönd. Mig grunar og ekki bara grunar, ég held að það sé þannig að því miður sé hér á þingi meiri hluti fyrir því að fara ekki þá leið að setja inn skilyrði eða skýrt samningsmarkmið eða hvað við köllum það fyrir samninganefndina. Það hefði verið miklu betra og eðlilegra og miklu meiri reisn yfir því ef samninganefndin hefði farið með eða ef samninganefndin fer með — skulum við orða það frekar — í nesti með sér alveg skýrt, svart á hvítu hvað sé óumsemjanlegt af hálfu Íslands, hverju við erum ekki til í að fórna, hverju við erum ekki til í að semja um. Ég hefði haldið að það væri meiri bragur að því að fara þá leið.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna stjórnarflokkarnir eða meiri hlutinn hér á þingi sé ekki tilbúinn til að fara þessa leið. Ég átta mig ekki á því. Ég veit ekki og ég bara verð að viðurkenna að ég skil ekki af hverju ekki er hægt að ganga þessa leið. Ég sagði það í fyrstu ræðu minni og mun segja það hér aftur að úr því sem komið er, að ekki er vilji fyrir því að fara þessa leið og ljóst að það á að halda til streitu þessari tillögu meiri hlutans, að þá sé eðlilegra að setja á aðra fyrirvara sem eru þeir að hreinlega láta íslensku þjóðina ákveða hvort við förum í þessa vegferð eða ekki.

Það er nú einu sinni þannig að þetta eru þeir hagsmunir sem mestu skipta sem við erum að tala um og ég fæ ekki séð hvernig við getum hundsað það. Áhyggjurnar eru vitanlega mjög miklar þegar við ræðum um þjóðaratkvæðagreiðslur yfirleitt eins og þær eru túlkaðar hér af hálfu meiri hlutans hér á þingi, þ.e. að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur séu í raun bindandi. Það er undir okkur sjálfum komið og ég hef lýst skoðun minni í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal og ítreka það.

Stóra spurningin er, og við komum alltaf að henni aftur og aftur: Hverju erum við tilbúin að fórna? Um hvað erum við tilbúin að semja og hvað ekki? Ég er ekki til í að semja um að íslenskur landbúnaður líði hér undir lok eins og formaður Bændasamtakanna lýsir í grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Nú er vitneskja fyrir hendi um að stjórnvöld hafi nýlega látið meta stöðu ...“ — þá er hann reyndar að tala um þá skýrslu sem við ræddum í dag og hann segir í niðurlaginu varðandi skýrsluna“ — „Það kemur raunar ekki á óvart því að afstaða Bændasamtakanna er byggð á traustum rannsóknum og undirbúningsvinnu. Skýrslan er því ekki það vopn sem ESB-sinnar í utanríkismálanefnd vonuðust til að geta notað til að slá af málflutning bænda.“

Hann er að segja að sú skýrsla sem við fjöllum um hér í dag var ekki það vopn sem menn vonuðust eftir.

Hann segir að lokum, þessi ágæti formaður, með leyfi forseta:

„Þau sem styðja aðildarumsókn eru að senda bændum skilaboð um að huga sem minnst að framtíðaruppbyggingu búa sinna. Skipuleggja undanhaldið. Skilaboð þeirra eru að það dregur hratt að endalokum nútímalandbúnaðar á Íslandi. Því ekki sækjum við um til að hafna síðan aðild?“

Þetta er formaður Bændasamtakanna sem hér talar. Ég tek undir orð hans að við erum hér að tala um, eins og tillagan lítur út að mínu viti — ég ætla að leyfa mér að orða það þannig — eins og tillagan lítur út í dag eru þessir fyrirvarar ekki fyrir hendi sem ég tel að séu nauðsynlegir. Það sama á við um sjávarútveg. Erum við til í að veita einhverja afslætti eða semja um eitthvað varðandi sjávarútveginn? Erum við til í að semja um að afsala okkur stjórn á okkar náttúruauðlind, okkar fiskveiðum? Erum við til í að gefa það frá okkur að koma að samningaborði varðandi til dæmis nýtingu á þeim flökkustofnum sem hér fara inn í okkar landhelgi? Ég segi nei. Við getum ekki gefið slíkt eftir.

Tíminn er að verða búinn, hæstv. forseti, en ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að á morgun er ögurstund íslenskrar þjóðar þegar við greiðum hér atkvæði. Ég tek ofan fyrir þeim þingmönnum Borgarahreyfingarinnar sem hafa ákveðið að setja hag þjóðarinnar í brodd fylkingar eins og þeir lofuðu í sinni kosningabaráttu og það ber vitanlega að virða. Það ber að virða. Ég treysti því að þegar þingmenn vakna í fyrramálið muni þeir vera búnir að hugsa málið vandlega í nótt, velta því fyrir sér hvort það sé þess virði að taka þá áhættu sem við erum að fara út í núna, eyða í það öllum þessum peningum sem þetta mun kosta. Meðan við lifum í samfélagi þar sem þarf að velta fyrir sér hverri krónu þá getum við ekki leyft okkur að taka hér þúsund milljónir króna eða þaðan af meira og eyða í eitthvað sem er jafnvel ekki og mér sýnist hreinlega að það sé ekki meiri hluti fyrir að verði samþykkt á endanum. Þeim peningum er kastað á glæ.