137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að leiðrétta það síðasta sem hv. þingmaður sagði, um 80% á móti sér. Það er ekki svo. Ég bendi hv. þingmanni á að hér var gerð skoðanakönnun nýlega þar sem í ljós kom að tvöfalt fleiri voru fylgjandi því að sækja um aðild að Evrópusambandinu en þeir sem voru á móti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram.

Mér finnst líka að hv. þingmaður hafi ekki mikið álit á sinni þjóð. Hann talar hér um að það sé líklegt að samningurinn verði vondur, að samningamennirnir séu alveg sérstaklega vondir og líklegir til þess að kikna í hnjánum eða koma heim með vondan samning. Ef svo er, er það ekki þjóðin sem að lokum í öllu falli sker úr um það? Er það ekki svo? Alla vega miðað við það sem hv. þingmaður segir. Hún fær alla vega að gefa honum ráð, segja sitt álit. Heldur hv. þingmaður að ef þjóðin tekur afgerandi afstöðu að (VigH: Afgerandi?) þetta þing (VigH: Afgerandi?) og hvaða þing sem þá kann að sitja mundi leggjast gegn því?

Hv. þingmaður verður líka að fylgjast með. Nú veit ég að vísu að hv. þingmaður situr ekki nema endrum og sinnum sem varamaður í utanríkismálanefnd. En hann hafði þar ekki mjög hratt á hæli og staldraði nokkuð við á meðan á umfjöllun nefndarinnar stóð. Hann veit það jafn vel og ég að það komu 55–60 álit skrifleg. Má ég spyrja hv. þingmann: Hvað voru mörg álit af þessum 55–60 sem lögðust beinlínis gegn málinu? Hann þarf ekki að svara því. Ég skal svara því fyrir hann: Þau voru sex. Þetta er nú hin breiða samstaða sem er gegn þessu máli.

Þetta er auðvitað tóm vitleysa og gamlir og gegnir kaupfélagsmenn eins og ég og hann eigum ekki að tala svona. Við getum alla vega sameinast um það að við vitum að það eru tvö kaupfélög í heiminum sem bera af öðrum. Það eru Kaupfélag Skagfirðinga og Evrópusambandið. Ég styð bæði, hann bara Kaupfélag Skagfirðinga.