137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er afskaplega gaman að taka þátt í þessari umræðu vegna þess að það lýsir af henni lýðræðislegum þrótti. Ég ber virðingu fyrir hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir skoðanir hans sem hér hafa komið fram, þær eru mjög mikilsverðar. Hér er ekki um „absalútt“ hlut að ræða, hvorki er hægt að segja að Evrópusambandið sé algott né alvont.

Ég kem, rétt eins og hann, úr Norðausturkjördæmi þar sem mikill landbúnaður er stundaður og ég hef rætt við fjölda fólks í því ágæta kjördæmi um Evrópusambandið og hugsanlegar afleiðingar af inngöngu í það. Þetta fólk í dreifðum byggðum hefur haft mikinn áhuga á að ræða þessi mál á upplýsandi hátt, ekki með klisjum eða sleggjudómum.

Þegar kemur að Evrópusambandinu og hinum dreifðu byggðum skulu menn hafa í huga þrjú megingildi í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, sem eru fjölbreytni lífríkis, fjölbreytni atvinnulífs og matvælaöryggi. Ég held að í ljósi þessara þriggja atriða séu mikil sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað. Þar fyrir utan eru aðrir þættir sem kunna að skapa miklu meiri tækifæri, það eru umhverfistollar, sem verða æ hærri í framtíðinni, landfræðileg staða Íslands og svo sú náttúrulega sóttkví sem af henni hlýst.

Ég tel því að við þurfum ekki að óttast alheiminn og umhverfið í þessu máli heldur eigum við einmitt að opna (Forseti hringir.) á samninga og sjá hvað er í boði með styrk íslensks landbúnaðar í huga.