137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Nú er farið að líða að lokum þessarar umræðu og ég vil nota tækifærið í upphafi síðari ræðu minnar til að þakka enn á ný nefndarmönnum í utanríkismálanefnd fyrir þeirra ágæta starf og einnig fyrir þá umræðu um þetta mikilsverða mál sem hér hefur verið bæði í kvöld og undanfarna daga.

Ég vil byrja á því að velta upp einum þætti sem mér hefur ekki þótt þingheimur veita nægilega athygli en skiptir miklu máli þegar menn velta fyrir sér inn í hvaða samband við gætum farið verði tillaga ríkisstjórnarinnar samþykkt á morgun. Það snýr að efnahagslegri framtíð ESB, hvernig efnahagslegar horfur eru í álfunni þegar menn horfa til lengri tíma. Framleiðni í ríkjum ESB er lægri en gengur og gerist t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku sem hefur um leið áhrif á öll lífskjör og hagvöxt í álfunni. Það er alvarlegt vegna þess að þegar menn horfa til lengri tíma hvað varðar möguleika Evrópuríkja til að halda uppi öflugum velferðarríkjum standa menn frammi fyrir mjög alvarlegum vanda sem felst í aldurssamsetningu flestra Evrópuþjóða. Þegar litið er á álfuna í heild voru um það bil 16% af íbúum Evrópu eldri en 65 ára árið 2002. Þegar horft er fram til ársins 2025 má ætla að yfir 20% af íbúum álfunnar verði orðin eldri en 65 ára. Í einstaka ríkjum, t.d. Þýskalandi, bendir allt til þess að 30% þjóðarinnar verði eldri en 65 ára árið 2025. Hverjar eru afleiðingarnar?

Í fyrsta lagi verður lífeyrissjóðakerfi álfunnar í gríðarlegum og vaxandi vanda. Það verður erfitt fyrir þær þjóðir að tryggja að hægt verði að bjóða upp á sambærileg lífskjör fyrir eldri borgara eftir 20–30 ár eins og þau eru núna án þess að til komi miklar skattahækkanir.

Í öðru lagi er einsýnt að draga mun úr sparnaði í samfélögum þar sem stór hluti þjóðarinnar er kominn yfir 65 ára aldurinn, einfaldlega vegna þess að sá hópur leggur ekki til hliðar; hann er kominn af vinnumarkaðnum. Þar með er dregið úr sparnaði og í framhaldinu, verði ekkert að gert, mun draga úr hagvexti. Þetta bítur í skottið á sér því að menn þurfa að leggja á hærri skatta til að standa undir velferðarkerfinu, sérstaklega velferð eldri borgara, og um leið er dregið enn frekar úr möguleikum hagkerfisins til að skapa auð. Þetta er stórt vandamál sem er fram undan í ríkjum ESB, gríðarlegt vandamál sem við Íslendingar stöndum ekki frammi fyrir, í það minnsta ekki í jafnríkum mæli. Þetta mun gera það að verkum að hætta er á að álfan dragist aftur úr í efnahagsþróun bæði miðað við Bandaríki Norður-Ameríku og eins Asíuríki. Þetta er vandamál. Vandinn er magnaður upp innan ESB þar sem sterk tilhneiging er til að búa til verndarmúr utan um fyrirtæki sem starfa á þeim markaði, verja þau fyrir samkeppni frá Asíu og jafnvel Austur-Evrópu. Menn hafa áhyggjur af svokallaðri þjónustutilskipun sem gengur illa að innleiða vegna þess að menn vilja verja þann hluta Evrópu sem býr við einna besta velferðarkerfið fyrir því sem menn kalla undirboð frá ríkjum Austur-Evrópu þegar kemur að framboði og þjónustu en þjónustukerfið er stærsti hluti evrópska efnahagskerfisins. Þetta er vandinn og inn í þessar aðstæður förum við Íslendingar ef við sækjum um aðild að ESB og samþykkjum.

Mér hefur þótt nokkuð vanta upp á að við ræðum einmitt þennan þátt þegar kemur að þróun ESB. Við munum að sjálfsögðu, komi til þess að hingað verði leiddur samningur um aðild Íslands að ESB, þurfa að fara mjög ítarlega og nákvæmlega í gegnum slíkt.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og það hljóti að koma að því fyrr eða síðar að Íslendingar sæki um aðild að ESB. Ég hef lýst yfir þeirri skoðun minni ítrekað bæði í þessum ræðustól og í greinum í blöðum. Hvers vegna hef ég gert það? Ég hef gert það vegna þess að ég sé eins og margir aðrir að uppi eru vandamál með íslensku myntina og ég tel að fyrr eða síðar þurfum við að horfast í augu við þá kosti sem í raun og veru fylgja aðild að ESB og vega þá og meta gagnvart þeim möguleika að við getum tekið upp evru. En ég hef líka sagt og lagt áherslu á að það er villuljós að halda og trúa að við leysum öll okkar efnahagsvandamál ef við bara tökum upp evru. Það er langt í frá og sú þraut er alveg örugglega þyngri en margur heldur að stýra efnahagslífinu við þær aðstæður þegar búið er að taka upp mynt sem getur þróast með allt öðrum hætti en aðstæður hér á landi bjóða upp á. En ég hef samt sem áður sagt: Það er rétt að skoða þetta.

Meginástæðan fyrir því að ég hef talið að fyrr en síðar þyrfti þetta að gerast er sú að við verðum að lokum að leiða þessa deilu til lykta. Þess vegna er mjög mikilvægt að þjóðin hafi möguleika á því að lokum að segja sína skoðun á þessum málum. Við getum ekki endalaust haft þetta deilumál uppi í okkar samfélagi. Það þvælist fyrir og gerir illt verra. En, og það er stórt en, það er ekki sama hvernig menn ráðast í þessa vegferð. Það er ekki sama hvernig menn leggja af stað og heldur ekki hvernig menn sjá fyrir sér lendingu. Það er ekki hægt að sigla skipi í land hvar sem er og hvernig sem er, menn verða að hafa komið auga á góða höfn.

Í fyrsta lagi tel ég að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar sér að leggja upp með, og mun leggja upp með fái hún til þess samþykki á morgun, sé mjög mörkuð því að flokkarnir sem eru í ríkisstjórn eru fullkomlega og algerlega ósammála um hvort Ísland eigi að ganga í ESB eða ekki. Um er að ræða málamiðlun sem byggir á því að undir liggur ríkisstjórnarsamstarf. Gott og vel. Það hefur komið skýrt fram. En um leið er kominn upp sá vandi, frú forseti, að þótt farið verði af stað í þetta samningaferli og íslenskir samningamenn sendir til Brussel til að semja við ESB er engin trygging fyrir því að þeir komi til baka með samning sem þjóðin geti sagt sitt álit á. Það er langt í frá.

Hjá helstu talsmönnum Vinstri grænna á þinginu hefur ítrekað komið fram að ef sú staða kemur upp í samningaferlinu að menn meti það svo – þá væntanlega ríkisstjórnin, ráðgjafar hennar og þeir sem standa í samningunum – að ekki sé hægt að ná viðunandi samningum t.d. í sjávarútvegs- eða landbúnaðarmálum, hljóti menn að hætta samningum og koma heim. Þá stendur eftir sá vandi sem ég lýsti áðan. Þjóðin hefur ekki fengið að segja sína skoðun. Sá vandi stendur eftir, frú forseti, og er óleystur. Deilan mun halda áfram og verða enn magnaðri en áður. Þessi hætta er yfirvofandi vegna þess að það liggur fyrir þegar stefnuskrá Vinstri grænna er skoðuð að varla er með nokkru móti hægt að sjá fyrir sér að mögulegt sé að búa til samning sem samrýmist skoðunum Vinstri grænna á því hvað sé boðlegt fyrir íslenska þjóð. Svo vel tel ég mig þekkja stefnu Vinstri grænna í þessu máli.

Þetta er fyrsti vandinn. En til að kóróna þennan vanda og bíta höfuðið af skömminni ætlar ríkisstjórnin að lenda málinu þannig — ef svo vill til að samningurinn komi til þjóðarinnar — að þjóðin á ekki að fá síðasta orðið heldur þingið, samkvæmt því sem lagt er upp með. Það á að vera ráðgefandi atkvæðagreiðsla. Sú furðulega umræða sem hefur sprottið upp um að slík ráðgefandi kosning, einhvern veginn á dularfullan hátt, hljóti að vera bindandi fyrir þingið bara svona af því bara, af því að mönnum finnst það, er alveg óskiljanleg. Það dugar ekki og gengur ekki að menn hrópi aftur og aftur að slík atkvæðagreiðsla hljóti að vera bindandi og þjóðin eigi síðasta orðið þegar við blasir allt önnur staða. Það gengur t.d. ekki að hæstv. utanríkisráðherra komi hingað upp og haldi því fram að auðvitað eigi þjóðin síðasta orðið og allir séu sammála um það en hlaupi síðan frá rökræðunni um hvað þetta þýðir. Menn hlaupa nefnilega ekki frá stjórnarskránni þótt þeir hlaupi frá rökræðunni. Það er augljóst mál að við þingmenn erum bundin stjórnarskránni, ekki tilmælum forustumanna flokkanna, ekki óljósum fullyrðingum um að menn hljóti að líta svo á að einhver atkvæðagreiðsla sé bindandi.

Það er reyndar alveg furðulegt að heyra þessar skoðanir koma frá þingmönnum sem margir hverjir hafa í mörg ár verið ötulir talsmenn þess bæði í þingsölum og annars staðar að þingmenn standi við sína sannfæringu, lúti ekki um of flokksaga o.s.frv. Þessir þingmenn ætla síðan að leggja af stað í þá vegferð að sækja um aðild að ESB, koma til þjóðarinnar og segja: Ykkar niðurstaða hlýtur að vera bindandi, við trúum ekki öðru. Á sama tíma liggur fyrir tillaga okkar sjálfstæðismanna um hvernig eigi að tryggja að það sé þjóðin sem eigi síðasta orðið. Enn á ný – menn verða að hafa þetta á hreinu vegna þess að ef það gerist, sem er líklegt, að það verði mjótt á mununum og við skulum segja enn og aftur að rétt rúm 50% þjóðarinnar segi já og rétt tæp 50% segi nei. Hvað ef sú staða kemur upp, hv. þingmenn, að fleiri þingmenn í hjarta sínu og samkvæmt sannfæringu sinni telji að samningurinn sé vondur, að þetta sé óaðgengilegur samningur fyrir íslensku þjóðina, trúi því einlæglega. Hvað gerist þá? Þá gerist það sem kom fram í þingsal þegar hv. þm. Ásmundur Daði Einarsson var spurður nákvæmlega þessarar spurningar …

(Forseti (ÁRJ): Einar Daðason.)

Ásmundur Einar Daðason.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður.)

Hv. þingmaður, þegar hann var spurður að því hvað hv. þingmaður — nú ætla ég ekki að leggja aftur í nafnið — hygðist gera kæmi til þess að hann stæði frammi fyrir þessu vali. Svar hv. þingmanns var alveg ljóst. Að sjálfsögðu mundi hv. þingmaður fylgja sinni sannfæringu, nema hvað. Síðan koma upp talsmenn og forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna og segja: Þetta hlýtur að vera bindandi. Ef hv. þingmenn meta það svo að þrátt fyrir að þjóðin hafi sagt með mjög naumum meiri hluta já og þingið segi nei, hvað gerist þá? Þá gerist það t.d. að ekki verða flutt nein frumvörp sem fá meiri hluta á þingi til að breyta stjórnarskránni svo hægt sé að lögleiða samninginn. Þessi möguleiki er uppi. Það er ekkert flóknara en það. Þess vegna skiptir svo miklu máli að á morgun sjái menn að sér, taki undir tillögu okkar sjálfstæðismanna og búi þessu máli þann búning að hægt sé að tryggja að þjóðin eigi síðasta orðið. Það er lykilatriði. Hér kemur hv. þingmaður sem ég fór rangt með nafnið á og ég bið hann afsökunar á því. (ÁsmD: Þakka þér fyrir það.)

Að lokum þetta. Á morgun er tækifæri fyrir ríkisstjórnina, Samfylkinguna og Vinstri græna, að taka ákvörðun þannig að það megi ná sátt og samstöðu í þingsalnum um þetta stóra og mikla mál. Ég hef það ríkt á tilfinningunni, frú forseti, að í raun og veru vilji meiri hluti þeirra þingmanna sem hér eru inni fara þá leið sem lagt er upp með að fara, tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að það sé tryggt að þjóðin eigi síðasta orðið.

Einn flokkur virðist ná því tangarhaldi á Vinstri grænum sérstaklega að koma í veg fyrir að það gerist. Að við missum úr höndunum tækifærið til að ná þessari breiðu sátt og það sem meira er, taka þetta mál upp úr pólitíska hjólfarinu, upp úr flokkspólitíkinni og segja við þjóðina: Þetta mál er þannig að það er eðlilegt í ljósi þeirra aðstæðna sem ég hef lýst hér að þið komið að þessu og takið þessa ákvörðun með okkur, hvort við eigum að fara af stað í þessa vegferð eða ekki. Við lofum ykkur að það verðið þið en ekki Alþingi sem eigið síðasta orðið. Ef við förum þessa leið með breiðri sátt, getum tryggt þjóðinni að það komi fram samningur sem hún getur tekið afstöðu til, þá held ég að við séum að vinna þjóðinni ágætt gagn. Þá held ég að við leiðum til lykta þá deilu sem hér hefur staðið undanfarin ár og verið erfið í okkar samfélagi. Þá tökum við skynsamlega á málum en nálgumst ekki þetta mál með því að segja: Ja, þetta bara reddast einhvern veginn, það hlýtur að fara þannig að þingmenn geri hitt og þetta, við trúum ekki öðru. Þess í stað segjum við: Við skulum setja allan ferilinn þannig niður og slá hann þannig í gadda, svo ég noti orðalag hæstv. utanríkisráðherra, að það sé tryggt að við mögnum ekki upp deilur í samfélagi okkar, að við setjum niður deilur og getum tekið ákvarðanir saman þannig að sómi sé að.

Að lokum vil ég nefna eitt af því að hér hafa menn rætt kostnað sem hlýst af þessu öllu saman og talan einn milljarður hefur flogið um þingsalinn. Ég held að það sé eins með þessa tölu og þegar menn setja skip í slipp að skynsamlegt sé að margfalda kostnaðaráætlunina með þremur. (Gripið fram í.) Úr því að þingmaðurinn nefnir það þá hefur einn hv. þingmaður sem hefur margra ára háskólanám á bakinu einmitt í þeim fræðum að reikna út og vinna með tölur, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, bent mér á að það sé langskynsamlegast að margfalda þennan milljarð með tölunni pí. Þá fái menn út vísindalega niðurstöðu og þurfi ekki að reiða sig á þær gömlu þumalputtareglur sem menn hafa um að setja skip í slipp, að það eigi allt að margfalda með þremur, bæði tímann og peningana. Mér segir svo hugur, frú forseti, að þetta verði dýr ferð og ekki verði sátt um að hún hafi verið farin. Það verði margir í þjóðfélaginu sárir út af því, sætti sig illa við það vegna þess að þjóðin hafi ekki fengið tækifæri til að segja sína skoðun og við munum að öllum líkindum velta því fyrir okkur hvers vegna við tókum ekki þá ákvörðun að búa til breiða sátt þegar við áttum möguleikann sem við höfum á morgun. Hvers vegna tókum við ekki þá ákvörðun að leyfa þjóðinni að koma að þessu? Þess munum við spyrja okkur og ég tel líklegt að við munum spyrja með söknuði.