137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Umræðan er að klárast um þessi tvö mál sem hafa verið hér á dagskrá en einkum hefur verið rætt mál ríkisstjórnarinnar um það hvort við Íslendingar ættum að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Vissulega er það þannig að á nefndasviði þingsins hefur verið unnin mikil vinna og afrakstur hennar liggur frammi í nefndarálitum og hér í þingsal hefur síðan í kjölfarið átt sér stað mikil umræða frá því undir lok síðustu viku.

Það sem hefur komið í ljós við þessa vinnu er í fyrsta lagi það að allt það sem áður hafði verið sagt um möguleika okkar Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið hefur verið staðfest, þ.e. að möguleikar okkar til þess að fá varanlegar undanþágur, einhverjar sérlausnir, eru litlir sem engir. Það vekur reyndar athygli núna undir lok umræðunnar þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur í pontu og segir hreint að út að við þurfum engar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni. Sjávarútvegsstefnan hefur verið sú þúfa sem hefur velt hvað þyngstu hlassi í stefnu einstakra flokka í Evrópuregluverkinu og reyndar orðið til þess að einstakir flokkar setja einmitt á því sviðinu mesta fyrirvara. Þetta sést t.d. af stefnu Sjálfstæðisflokksins í málinu, þetta má sjá af þeim breytingartillögum sem liggja hér frammi.

Á sviði sjávarútvegsmála höfum við Íslendingar alveg sérstakra hagsmuna að gæta. Stefna Evrópusambandsins á sjávarútvegssviðinu er smíðuð fyrir allt annan veruleika en við búum við þar sem Evrópusambandsríkin eiga með sér sameiginlega fiskstofna. Á sama tíma eru fiskstofnarnir okkar á Íslandi fyrst og fremst staðbundnir og enginn getur fært fyrir því nokkur haldbær rök hvers vegna við Íslendingar ættum að undirgangast sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins nema þá bara vegna þess að allir þurfi að undirgangast sömu reglurnar, sama regluverkið sem vilja starfa saman undir fána Evrópusambandsins. Það eru nefnilega engin haldbær rök fyrir því að við ættum að gefa frá okkur fulla stjórn og yfirráð yfir okkar eigin auðlind.

Það vekur ekki með manni mikla bjartsýni þegar hæstv. utanríkisráðherra er þeirrar skoðunar að við þurfum engar sérlausnir á þessu sviði. Ég er hins vegar sammála honum um það að möguleikar okkar til þess að fá einhverjar slíkar lausnir eru afar takmarkaðir, það hef ég margoft tekið fram. Og eins og ég vék að hér rétt áðan er það einmitt meginástæðan til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur, þrátt fyrir endurnýjað hagsmunamat, áfram komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum okkar væri betur borgið utan Evrópusambandsins.

Sannarlega eru kostir við nánara samstarf við Evrópusambandsríkin. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um þann þátt í fyrri ræðu minni en ég ætla þess í stað að gera að umtalsefni þá stöðu sem er hér á þinginu, þá atkvæðagreiðslu sem er fram undan og þann pólitíska stuðning sem er í reynd við það mál sem við erum nú að ljúka umræðu um.

Staðan er sú, ekki satt, að ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um að láta þingið taka ákvörðun í þessu máli. Þeir eru hins vegar ósammála um það í grundvallaratriðum hvort leggja beri fram umsókn. Það má einfaldlega ráða af stefnu beggja flokka sem þeir kynntu fyrir kosningar, annars vegar Samfylkingin, sem var þeirrar skoðunar að það væri okkar brýnasta efnahagslega og pólitíska hagsmunamál að leggja fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu, og hins vegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem er á öndverðum meiði, sem er þeirrar skoðunar að hagsmunum okkar sé vel borgið utan Evrópusambandsins.

Sú málamyndaniðurstaða fékkst síðan í stjórnarsamstarfinu, þar sem flokkarnir gátu augljóslega ekki komið sér saman um eina stefnu í þessu máli, að leggja málið fyrir þingið. Hvað hefur síðan komið í ljós í umræðum um það á þinginu? Ja, við vitum í fyrsta lagi að ríkisstjórnin er ekki einhuga í málinu. Við vitum það síðan eftir þær umræður sem hér hafa átt sér stað að það er augljóslega ekki meiri hluti fyrir málinu hjá einstökum stjórnarandstöðuflokkum. Ég verð að segja það að verði málið samþykkt hér á eftir er það einfaldlega vegna þess að einstakir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ákveðið að styðja við málið til þess að halda ríkisstjórninni áfram saman. Það getur ekki verið nein önnur skýring eða ástæða fyrir því að það myndist meiri hluti eftir þær umræður sem hafa farið fram á þinginu fyrir því að leggja af stað í þennan leiðangur, þessa vegferð, en sú pólitíska skýring að menn vilji halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram.

Þá er rétt að hafa þetta í huga: Leggi menn af stað í þennan leiðangur er öll vinnan eftir. Menn munu á endanum væntanlega koma heim með einhvern samning og þá tekur aftur við pólitíski veruleikinn sem við horfum framan í í dag, að það er ekki meiri hluti fyrir málinu í ríkisstjórninni og það er ekki meiri hluti fyrir málinu hjá einstökum stjórnarandstöðuflokkum. Það er einmitt þessi pólitíski stuðningur, þetta pólitíska breiða bakland sem ég tel að sé alltaf nauðsynleg forsenda þess að menn leggi af stað og það er ekki nægjanleg forsenda fyrir því að leggja upp í svona mikilvægan leiðangur að mikilvægt sé að halda ríkisstjórninni saman.

Ég tel að þeir sem helst vilja ganga inn í Evrópusambandið, sem helst vilja ná samningi við Evrópusambandið og ganga inn í þann klúbb, séu að gera sjálfum sér ákveðinn óleik með því að búa um málið með þessum hætti þegar lagt er af stað. Ég held að það sé augljóst í hvað stefnir. Ég held að þrátt fyrir góðan vilja þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessu stigi málsins til að styðja við ríkisstjórnina muni þeir klæðast fötum andstæðinga Evrópusambandsins þegar fram í sækir og berjast gegn málinu. Reyndar er það skrifað inn í málið sjálft. Það er skrifað inn í þingsályktunartillöguna sjálfa að þeir áskilja sér allan rétt til að berjast gegn niðurstöðunni.

Það sem maður hefur reynt að átta sig á í umræðunni og ég hef spurt eftir, gerði það t.d. við fyrri umr. málsins, er þetta: Er einhver fyrirvari yfir höfuð hjá þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem standa að baki þessari tillögu? Eru einhver skilyrði yfir höfuð fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið? Það er eitt að setja inn í álit meiri hluta utanríkismálanefndar langa lista um þá hagsmuni sem gæta þarf að í viðræðuferlinu. En þeir sem tala um það í sama þingmáli og fjallar um það að leggja inn umsókn að þeir áskilji sér rétt til að berjast gegn niðurstöðunni þurfa þá að gera betur grein fyrir þeim fyrirvara sem þeir hafa á endanlegri niðurstöðu málsins. Eða er það kannski þannig að menn séu tilbúnir til að ganga inn í Evrópusambandið, eins og mér heyrist hæstv. utanríkisráðherra vera, eins og það er, án fyrirvara, án allra undanþágna og þrátt fyrir að okkur yrði ekkert ágengt í þeirri hagsmunagæslu sem mönnum verður svo tíðrætt um í samskiptum okkar og Evrópusambandsins? Mig grunar nefnilega að svo sé. En það kann að þjóna skammtímahagsmunum manna sem hafa svo mikinn áhuga á því að hrinda ferlinu af stað að leggja þá umræðu tímabundið til hliðar.

Á sama tíma hafa þessar aðstæður kveikt miklar væntingar meðal þjóðarinnar um að hægt sé að ná hagstæðri niðurstöðu í samningaferlinu. Ég hef bent á það áður í ræðum á þinginu að það er merkilegt að sjá hversu mikill munur er milli skoðanakannana sem sýna annars vegar áhuga manna á því að fara í viðræðurnar og hins vegar áhuga manna á því að ganga inn í Evrópusambandið af því að í öllum aðalatriðum þekkjum við regluverk Evrópusambandsins. Vinnan á þinginu hefur snúist um að fara ofan í saumana á því regluverki og bera það saman við okkar íslensku hagsmuni. Þess vegna tel ég að þegar að því kemur að aðildarsamningur verður lagður fram muni sú staðreynd að annars vegar er ekki breiður pólitískur stuðningur við málið á þinginu, eins og ég hef núna rakið, og svo hins vegar sú staðreynd að það eru mjög miklar væntingar bundnar við mögulegan aðildarsamning úti í samfélaginu leiða til þess að það tekst engin samstaða meðal þjóðarinnar. Af þessari ástæðu höfum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd teflt fram þeirri hugmynd að ekki verði lagt af stað í þessa vegferð án þess að þjóðin hafi kveðið upp úr með það. Þar sem hér á þinginu er í reynd ekki einungis verið að greiða atkvæði um það hvort leggja eigi af stað í þessa vegferð heldur eigi atkvæðagreiðslan sem fer fram í hádeginu í bland að vera atkvæðagreiðsla um það hvort menn vilji sjá þessa ríkisstjórn starfa áfram. Því miður er það þannig þrátt fyrir góðan vilja um allt annað.

Ég vil meina að eina skynsamlega leiðin til að hefja vegferð af þessum toga sé sú að láta reyna á breiða samstöðu meðal þjóðarinnar. Það er um þetta sem við erum að fjalla þegar við segjum að breið samstaða þurfi að nást um það hvernig viðræðuferlinu sjálfu verður hrint af stað.

Það er önnur breytingartillaga sem við leggjum áherslu á að þingið samþykki. Hún fjallar um það hvernig þjóðin kemur að því að staðfesta endanlegan samning. Við erum þeirrar skoðunar að mál af þessum toga þurfi að vera borið uppi af stjórnmálunum í landinu. Þeir sem hrindi viðræðunum af stað óski eftir umboði til að fara í viðræðurnar. Þeir sem ætla síðan að ljúka endanlegum samningi þurfi að hafa pólitískan vilja til að fylgja honum eftir alla leið, fá hann staðfestan á þinginu, berjast fyrir staðfestingu hans á þinginu. Síðan í kjölfarið að leita staðfestingar þjóðarinnar. Ef þessi leið verður ekki farin heldur sú sem ríkisstjórnin er að leggja upp með og meiri hluti utanríkismálanefndar hefur blessað þá er efnt til þessa leiðangurs með þeim hætti sem ég hef núna lýst, án þess að pólitísk samstaða sé um það í reynd á þinginu. Þegar niðurstaðan er svo fengin, hvað gerist þá? Er þá ríkisstjórnin í landinu tilbúin til að segja: Þetta er það sem viljum. Þetta er það sem við ætlum að gera. Þetta er það sem við teljum þjóðinni fyrir bestu. Þess vegna ætlum við að breyta stjórnarskránni, boða til kosninga, leita heimildar á nýju þingi til að fá stjórnarskrárbreytingarnar samþykktar og staðfesta svo samninginn af því að þetta er það sem stjórnmálamennirnir í landinu, fulltrúar þjóðarinnar, vilja gera í málinu. Nei, menn treysta sér ekki til þess. Menn ætla að fá á þeim tímapunkti einmitt af sömu ástæðu og menn treysta sér ekki til að bera málið undir þjóðina á þessum tímapunkti þá ætla menn að fara í sínar pólitísku skotgrafir, annars vegar Samfylkingin og hins vegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hvor flokkur með sína skoðunina á því hvað þjóðin eigi á þeim tímapunkti að gera og ýta málinu frá sér. Þeir eru ekki tilbúnir til þess á þeim tíma, þrátt fyrir að samningur verði í höfn sem framkvæmdarvaldið hefur náð eftir viðræður við Evrópusambandið, til að bera hann upp á þinginu, gera nauðsynlegar stjórnlagabreytingar og staðfesta hann með fyrirvara um samþykki þjóðarinnar. Það er ekki pólitískur kjarkur í ríkisstjórninni til að fara þá leið sem skrifuð er inn í stjórnarskrána í þessum málum. Þá á aftur að skjóta sér undan þeirri staðreynd að flokkarnir eru fullkomlega ósammála og ýta málinu út til þjóðarinnar.

Ég segi einfaldlega við þá sem hafa þá sannfæringu að við eigum að ganga í Evrópusambandið: Þið eruð að gera sjálfum ykkur óleik með því að standa svona að málum. Ef málið er ekki tilbúið núna en þið hafið sannfæringu fyrir því að þetta sé íslensku þjóðinni fyrir bestu þá eigið þið að gefa málinu meiri tíma þangað til sú breiða samstaða sem nauðsynleg er hefur fengist, annaðhvort í þinginu eða meðal þjóðarinnar. Ég tel reyndar að það verði aldrei breið samstaða meðal þjóðarinnar í þessu máli meðan engin samstaða ríkir um það á milli flokkanna í landinu. Þegar ekki einu sinni neinir tveir flokkar á þinginu geta komið sér saman um hvað er þjóðinni fyrir bestu í þessu máli þá tel ég einsýnt að ekki verði samstaða um það meðal þjóðarinnar.

Málið getur tekið breytingum mjög til batnaðar fallist menn á að gera þær breytingar á því sem ég hef rakið og liggja frammi og við munum greiða atkvæði um á eftir. Þá mun verða látið á það reyna hvort þjóðin er tilbúin að leggja af stað í þessa vegferð, upplýst um að enginn samningur verði gerður við Evrópusambandið án þess að fórnir verði færðar, upplýst um að hún muni ávallt fá að eiga síðasta orðið. Hún verði ekki beðin um ráðgefandi álit á þessu þingi sem meiningin er að binda næsta þing með. Við erum búin að fá það staðfest. Það liggur algerlega fyrir svart á hvítu eftir umræðurnar um þetta mál að þingmenn ætla ekki að láta binda sig á flokksklafa í þessu máli. Þingmenn munu ekki fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og fara að ráðum forustumanna flokka sinna, gefa frá sér sannfæringu sína þegar málið kemur inn á þingið. Þetta höfum við einfaldlega séð á umræðunum í þinginu. Hugmyndin um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er því ekkert annað en veikburða tilraun til að komast fram hjá stjórnarskipunarlögunum, komast fram hjá þeirri óumflýjanlegu staðreynd að í ríkisstjórn eru tveir flokkar sem eru ekki einhuga í málinu, sem eru tilbúnir til að bera málið uppi, bera á því ábyrgð, standa og falla með sinni sannfæringu og láta síðan þjóðina eiga úrslitaorðið. Það er af þessari ástæðu sem ég tel að við séum á rangri leið. Það er af þessari ástæðu sem ég tel nauðsynlegt að þingið geri þær breytingar sem ég hef gert að umtalsefni.

Ég ætla rétt að vona að það sé ekki þannig að ríkisstjórnarflokkarnir hafi farið í hausatalningu og stillt svo af þann stuðning sem nauðsynlegur er til að ríkisstjórnin haldi velli og beðið einstaka þingmenn um að fórna sannfæringu sinni í atkvæðagreiðslunni á eftir í einhverjum slíkum tilgangi. Nei, ég ætla frekar að vona að menn fylgi einfaldlega sinni sannfæringu. Hún hefur komið mjög skýrt fram í þinginu. Ég virði það svo sem alveg við hæstv. heilbrigðisráðherra sem flutti innblásna ræðu gegn Evrópusambandsaðild þegar hann mun á eftir greiða atkvæði með því að fara í aðildarviðræður. Hann segir alveg grímulaust að hann muni alltaf berjast gegn Evrópusambandsaðild en hann ætlar að greiða atkvæði með því að lagt verði af stað. Með hverju er þá sá hæstv. ágæti ráðherra að greiða atkvæði á eftir? (Heilbrrh.: Viðræðunum.) Ég held að hann sé ekki að fylgja eigin sannfæringu. Hann er fastur í neti pólitísks veruleika sem erfitt er fyrir hann að komast út úr og þannig er það nefnilega með býsna marga aðra, gott ef sumir þeirra eru ekki einmitt hæstvirtir ráðherrar. Að minnsta kosti eru margir þeirra háttvirtir þingmenn sem sitja í súpunni eftir yfirganginn í öðrum stjórnarflokknum sem getur ekki beðið eftir því að málið nái að þroskast og þannig geti það mögulega borið þann ávöxt sem þeir vonast eftir. Ég tel að menn séu á rangri leið, sjálfum sér verstir og vinni málstað sínum ekki gagn með þeim undirbúningi þessa máls sem hér hefur átt sér stað.