137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:02]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Alþingismenn munu innan skamms greiða því atkvæði hvort og þá með hvaða hætti umsókn um aðild að ESB verður að veruleika. Þótt ekki sé kveðið á um stefnu Borgarahreyfingarinnar í þessu máli í stefnuskrá hennar hefur það verið óformleg og yfirlýst stefna hreyfingarinnar að eina leiðin til að fá úr því skorið hvort aðild að ESB sé góður valkostur sé að þjóðin greiði um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningur um aðild liggur fyrir.

Því miður er lífið ekki alltaf einfalt og nú hefur hluti af þinghópi Borgarahreyfingarinnar ákveðið að samþykkja tillögu þá er frammi liggur um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að þjóðin skeri fyrst úr um það hvort hún vilji hefja aðildarviðræður og síðan, ef svo vill til að samið verði um aðild, verði þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn sjálfan. Ef sú tillaga fellur munu sömu þingmenn greiða atkvæði gegn aðild að Evrópusambandinu.

Hér er um að ræða stefnubreytingu og brot á loforði þinghóps Borgarahreyfingarinnar við ríkisstjórnarflokkana um að styðja þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Af hálfu ríkisstjórnarflokkana hefur verið staðið að fullu við samkomulagið og meira en það því að Borgarahreyfingin fékk inn umtalsverðar viðbætur á óskum sínum í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Vil ég taka það fram að ég met mikils það samstarf og þann skilning sem sjónarmið okkar fengu í nefndarálitinu. Eins tel ég að hæstv. utanríkisráðherra hafi haldið vel á þessu máli og af sanngirni.

Stefnubreyting þessi er því alfarið ákvörðun Borgarahreyfingarinnar og að stórum hluta að undirlagi mínu og ég tek fulla ábyrgð á því. Persónulega þykir mér þetta leitt, mjög leitt.

Frú forseti. Ég mun nú gera nánari grein fyrir þessari stefnubreytingu.

Alþingi hefur nú fjallað um ESB-aðildarumsókn í um sex vikur og um Icesave-málið í þremur nefndum í a.m.k. tvær vikur. Á þessum tíma hafa komið fram upplýsingar sem gerðu það að verkum að sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa oft verið agndofa, að ekki sé minnst á vinnulagið sem hefur verið viðhaft, en eins og kunnugt er varð gassagangurinn á síðustu metrunum í meðferð Evrópusambands-málsins hjá utanríkismálanefnd til þess að upp úr sauð og að ekki gátu allir stuðningsmenn málsins skrifað undir nefndarálitið. Efasemdir fulltrúa Borgarahreyfingarinnar í nefndinni urðu á endanum það miklar að hún lýsti því yfir að hún gæti ekki stutt málið. Fyrir henni var þetta grundvallarsamviskuspurning og hún varð að svara samkvæmt því.

Hvað varðar breytingu á afstöðu minni og hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur tekur sú breyting mið af því sem komið hefur fram við Icesave-málið og þann málatilbúnað sem verið hefur á þinginu í kringum það.

Frá upphafi hefur sú hugmynd að skuldum Landsbankans, eða réttara sagt eigenda hans, sé velt yfir á almenning í landinu sem stofnaði ekki til þessara skulda verið mér og fjölmörgum öðrum þvert um geð. Hvorki ég né aðrir Íslendingar eiga að greiða skuldir annarra, í þessu tilfelli skuldir Björgólfsfeðga. Í meðförum þingnefnda, en svo vill til að ég á sæti bæði í efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd, hefur svo komið í ljós að öll umgjörð málsins er stórlega gölluð og að það er í raun algerlega óásættanlegt frá öllum sjónarhornum séð.

Það er einnig tenging þessa Icesave-samnings og aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu sem og framganga framkvæmdarvaldsins í þessu Icesave-máli sem gerir það að verkum að hluta Borgarahreyfingarinnar hefur snúist hugur en skýrt hefur komið fram, þótt óformlegt sé, að aðgöngumiðinn að Evrópusambandinu sé samþykkt Icesave-samningsins þar sem bæði Bretar og Hollendingar hafa hótað að beita sér gegn aðild Íslands verði Icesave ekki samþykkt.

Samninganefndin, sem virðist ekki beint hafa verið vel skipuð, kom heim með einhvern þann versta samning sem um getur í sögunni. Hér er ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra mikil, það mikil að ég tel fulla ástæðu fyrir hann að athuga stöðu sína.

Eftir undirskrift samningsins tók það þing og þjóð tvær vikur að fá að sjá samninginn, samning sem skuldsetur þjóðina um hugsanlega meira en 700 milljarða króna, skuld sem sama þjóð stofnaði ekki einu sinni til.

Nánast öll gögn, lögfræðileg sem töluleg, gefa til kynna að Icesave-samningurinn sé óaðgengilegur og þar hefur fjármálaráðuneytið gengið fram með mjög einkennilegar hagvaxtarspár sem virðast í raun ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum, en samkvæmt grófri úttekt á sumum þeirra forsendna sem gefnar eru í tölulegum álitum um málið virðist sem menn hafi einfaldlega reiknað sig til ásættanlegrar niðurstöðu. Eins hafa gögn og heimsóknir Seðlabankans vakið upp fleiri spurningar en þær hafa svarað. Umgjörð funda fjárlaganefndar hefur heldur ekki verið til þess fallin að ræða þessi mál af þeirri nákvæmni sem þarf.

Rétt er að geta þess að formenn beggja nefndanna sem ég á sæti í hafa verið til fyrirmyndar og hafa hv. þm. Guðbjartur Hannesson og Helgi Hjörvar staðið sig vel í flóknu máli og verið sanngjarnir þótt ýmislegt smálegt hefði mátt fara betur.

Eins hefur sá hræðsluáróður sem verið hefur í gangi vegna Icesave af hálfu sumra ráðherra verið ömurlegur, Kúba norðursins, Norður-Kórea, alger einangrun, Parísarklúbburinn. Einskis er látið ófreistað við að ná fram ósanngjarnasta máli lýðveldistímans og ég leyfi mér að spyrja hvers konar fólk sé eiginlega á bak við. Hvað varðar Parísarklúbbinn svokallaða og hræðsluáróðurinn gegn honum vil ég bara benda þingmönnum á síðasta bréfið í leynimöppu fjármálaráðherra sem liggur úti á nefndasviði en það bréf segir allt sem þarf um stöðu Íslands með tilliti til þess klúbbs. Því miður mun fjármálaráðherra halda því leyndu fyrir almenningi, hann skal bara borga.

Við teljum að Icesave-málið sé eitthvert það eitraðasta mál sem Alþingi hefur nokkru sinni séð og muni að óbreyttu valda þjóðinni óbætanlegu tjóni vegna þeirrar skuldastöðu sem hún kemst í. Engu verður eirt þegar kemur að skuldadögunum. Lífeyrissjóðirnir fara, það er þegar gert ráð fyrir þeim sem eign í tölfræðinni þegar kemur að eigum þjóðarbúsins svo kröfuhafar geti nú séð hvað er til. Auðlindirnar fara næst, fyrst með Landsvirkjun sem er komið í ruslflokk matsfyrirtækja og mun innan tíðar ekki eiga fyrir afborgunum. Ekki verða til fjármunir í samgöngukerfið, menntakerfið, heilbrigðiskerfið eða velferðarkerfið og landið verður á endanum einhvers konar nýlenduútvörður Evrópusambandsins í Norður-Atlantshafi og þjóðin leiguliðar í eigin landi.

Hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon verða þá hins vegar komin á eftirlaun, með Davíð.

Okkur virðist því sem ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn sjáist ekki lengur fyrir í áherslum sínum og við teljum að sú forgangsröðun að hafa þing í allt sumar vegna þessara tveggja mála sem ekki gera neitt til að greiða úr þeim mikla vanda sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum í landinu sé einfaldlega kolröng. Spurning er hvort ekki sé kominn tími fyrir þjóðstjórn í landinu.

Vegna þessa alls ákváðum við að spyrna við fótum og reyna að ná athygli ríkisstjórnar um þetta alvarlega mál sem fjármálaráðherra er svo hugleikið og reyna að breyta meðferð ríkisstjórnarinnar á því.

Frú forseti. Tillögur okkar í Icesave-málinu eru þrjár:

1. Að málinu verði frestað til haustsins og þá tekið upp að nýju. Þannig gæfist tími til að gaumgæfa það betur og hugleiða jafnframt betur aðra möguleika í stöðunni, en komið hefur skýrt fram að þeir eru til.

2. Að þingið skipi nýja Icesave-nefnd með sérfræðingum þingsins — en þess má geta að þegar eru í efnahags- og skattanefnd fjórir hagfræðingar, hver úr sínum flokknum — sem hefði það hlutverk að fara faglega yfir málið til haustsins með tilliti til skuldaþols þjóðarbúsins o.fl.

3. Að skýrt verði kveðið á um hvenær og með hvaða hætti eignir þeirra sem stofnuðu til Icesave-skuldbindinganna verði frystar og hvernig verður reynt að ná til þeirra. Ekki gera ekki neitt, segir einhvers staðar, og það er tillaga okkar. Við viljum ekki henda út Icesave-samningnum og gera ekki neitt, við viljum fá nýjan og hagfelldari samning sem við getum staðið undir.

Þetta eru allt saman eðlilegar og réttmætar ástæður og viðsemjendur okkar yrðu einfaldlega að virða þær.

Þessar tillögur voru kynntar hæstv. ráðherrum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni í gærkvöldi og var þeim hafnað.

Frú forseti. Ósætti hjá þingi, innan þingflokka og hjá þjóðinni í báðum þessum málum er og verður hugsanlega jafnerfitt og jafnlangvarandi og herstöðvarmálið var. Hægt er að gera betur. Við getum gert betur. Það er okkar að gera betur. Því beini ég því einfaldlega til hæstv. forseta að atkvæðagreiðslunni sem fram undan er verði frestað og að þingmenn reyni að ná frekari sáttum í þessum málum.

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands er á einhverri vegferð sem mun ekki leiða til góðs. Hún hefði getað gert vel en kaus að gera það ekki. Ef afstaða Borgarahreyfingarinnar í ESB-málinu verður til þess að þessi ríkisstjórn hugsi ráð sitt erum við, með því að setja stein í götu ESB-aðildarviðræðnanna, að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.