137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Við erum komin að lokum þessarar umræðu um þingmálin er varða tengsl Íslands og Evrópusambandsins eftir að hafa haft þau hér til umræðu í hátt í vikutíma. Áður hafði málið verið til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis í um sex vikur. Þannig má segja að þetta mál allt hafi fengið býsna yfirgripsmikla meðferð, og vandaða, af hálfu þingsins. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir þá umræðu sem fram hefur farið í þingsölum um þetta mál, hún hefur í öllum aðalatriðum verið málefnaleg þótt skiptar skoðanir séu um þetta mál rétt eins og í samfélaginu öllu. Það eigum við að sjálfsögðu að virða og það er eðlilegt að í þingsölum endurspeglist ólík sjónarmið eins og í samfélaginu sjálfu. Annað væri í sjálfu sér óeðlilegt.

Nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar er að mínu viti góður efniviður fyrir alla þá umræðu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins sem við munum eiga í á næstunni. Þar hafa margir lagt hönd á plóg, bæði nefndarmenn úr öllum stjórnmálaflokkum, stjórn og stjórnarandstöðu, starfsmenn þings og ráðuneyta og ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra fyrir framlag þeirra til vinnunnar. Vinnan á vettvangi nefndarinnar var bæði yfirgripsmikil og upplýsandi, en þrátt fyrir mikla vinnu, upplýsingaöflun og skoðanaskipti er ólíklegt að skoðanir nefndarmanna á aðild að Evrópusambandinu hafi mikið breyst í þeirri vinnu allri, flestir höfðu nokkuð mótaða afstöðu til þessa máls áður en lagt var í þá vegferð.

Mig langar að fjalla hér um nokkur álitamál sem hafa komið fram í umræðunni til þessa, sérstaklega þau sem ágreiningur hefur verið um og birtist í mismunandi nefndarálitum. Þar er fyrst til að taka stjórnarskrána sjálfa. Því hefur verið haldið fram í umræðunni hér að það sé brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að Alþingi eða ríkisstjórn taki ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þeirri staðhæfingu, hún er að mínu viti röng. Samkvæmt þeim álitum sem við höfum fengið frá stjórnarskipunarfræðingum er ekkert því til fyrirstöðu að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu með að sjálfsögðu eðlilegum fyrirvara um þær breytingar sem slík aðild mundi kalla á á stjórnarskrá lýðveldisins.

Einnig hefur farið fram nokkur umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvenær hún eigi að fara fram, hvort hún eigi að vera leiðbeinandi eða bindandi og hvort þær eigi að vera tvær eða hugsanlega fleiri. Varðandi það mál vil ég sérstaklega segja að ég tel mikilvægt að þegar þetta mál verður leitt til lykta af þjóðinni sjálfri í þjóðaratkvæðagreiðslu verði það gert á grundvelli niðurstöðu úr aðildarviðræðum sem farið verður í verði tillaga þar að lútandi samþykkt á Alþingi. Ég tel mikilvægt að öll gögn sé reidd fram fyrir þjóðina til að taka afstöðu til.

Hvað varðar ágreininginn eða skoðanaskiptin um bindandi eða leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu er ég þeirrar skoðunar og meiri hluti nefndarinnar sem skrifar undir nefndarálitið að það sé óviðunandi að niðurstöður úr aðildarviðræðum sem slíkum fari ekki í þjóðaratkvæði þá þegar sú niðurstaða liggur fyrir, að þjóðin fái ekki að taka afstöðu til efnisatriða samningsins. Í hinni leiðinni sem m.a. er gert ráð fyrir að verði farin í einni af þeim breytingartillögum sem liggja fyrir við þetta mál er gert ráð fyrir því að þegar aðildarviðræðum ljúki taki Alþingi ákvörðun um að ráðast í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni og samþykkja lög um aðild Íslands að Evrópusambandinu, að vísu með fyrirvara um samþykki þjóðarinnar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, en ég spyr: Trúa menn því að þingmenn sem eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu muni einhvern tíma ljá máls á því að setja lög þar að lútandi, þótt með fyrirvara sé um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, hafi þjóðin ekki á fyrri stigum komið að því að ákveða að hún vilji aðildarsamning?

Ég tel þess vegna algert lykilatriði að þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir verði hann borinn undir þjóðaratkvæði og þá og því aðeins að þjóðin samþykki efnisatriði slíks samnings verði ráðist í nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar, stjórnarskrárbreytingar sem heimila framsal ríkisvalds eins og fylgir óhjákvæmilega aðild að Evrópusambandinu og eins og m.a. er vikið að í nefndaráliti meiri hlutans og ég hef lýst sem minni skoðun. Í mínum huga er ekkert því til fyrirstöðu, ef Alþingi kýs svo, að í stjórnarskrárbreytingum sé kveðið á um sérstaka meðferð hvað varðar framsal ríkisvalds, t.d. eins og þekkist í öðrum löndum, með aukinn meiri hluta á Alþingi eða staðfestingu þjóðarinnar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Sú leið sem hér er lögð til á þingskjali útilokar hins vegar að niðurstaða aðildarviðræðna verði borin strax undir þjóðina þegar hún liggur fyrir. Því er ég andsnúinn og leggst gegn þeirri tillögu af þeim sökum.

Í þessari umræðu allri hefur verið vikið að skilyrtu umboði og því haldið fram að engir skilmálar eða skilyrði fylgi þeirri tillögu sem hér liggur fyrir í formi breytingartillögu frá hv. utanríkismálanefnd. Ég segi enn og aftur við þá sem halda því fram: Það er ekki rétt. Í tillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir því að setja skýran ramma utan um umboð sem Alþingi ætlar að veita framkvæmdarvaldinu í þessu efni. Það er skýrt kveðið á um að það skuli vera náið samráð milli framkvæmdarvaldsins, löggjafarvaldsins, hagsmunaaðila, milli þings og þjóðar, með ítarlegum ákvæðum um upplýsingagjöf og samráð á hvaða stigi sem er. (VigH: Ekki …) Þetta verður ekki verkefni eins flokks eins og haldið er fram í þessari umræðu. Ákveði Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu verður það að vera sameiginlegt verkefni allra sem að því eiga að koma, allra stjórnmálaflokka, hagsmunaaðila.

Í nefndaráliti meiri hlutans liggur fyrir skýr lýsing á þessu ferli. Það liggur fyrir ásetningur um náið samráð við alla stjórnmálaflokka. Ég ætla líka að segja að ég mun ekki hlaupa frá neinum fyrirheitum sem ég hef gefið í umræðum eða í nefndaráliti til annarra stjórnmálaflokka, enginn undanskilinn, ég mun ekki hlaupa frá neinum fyrirheitum um samráð eða að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þeir hafa sett fram í málflutningi sínum og í tillögum verði ég yfirleitt í aðstöðu til þess að hafa einhver áhrif á þetta mál, (Gripið fram í: Það er nefnilega málið.) en það er að vísu óráðin gáta. (Gripið fram í.)

Í þessari umræðu hefur talsvert verið talað um að stjórnarflokkarnir séu ósamstiga hvað varðar aðildina að Evrópusambandinu. Ég ætla að segja um þetta mál að ég tel að það sé kostur ef Alþingi ákveður að fara í viðræður við Evrópusambandið að þar komi saman í framkvæmdarvaldinu andstæðir pólar. Efinn er ætíð góður förunautur í hverri vegferð. Við eigum í þessu máli að takast á um kjarna málsins, um aðalatriðin. Atkvæðagreiðslan í dag er ekki atkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu. Hún er atkvæðagreiðsla um málsmeðferð, hún er atkvæðagreiðsla um að koma þessu máli í tiltekinn lýðræðislegan farveg, máli sem lengi hefur verið á dagskrá íslenskra stjórnmála. Hvað sem líður yfirlýsingum einstakra stjórnmálamanna í gegnum tíðina um að málið sé ekki á dagskrá hefur það verið á dagskrá íslenskra stjórnmála. Þetta er tillaga um að koma því í réttan farveg og leggja niðurstöður aðildarviðræðna með öllum efnisþáttum málsins, skýrum og ljósum, fyrir þjóðina til ákvörðunar. Ég tel að það sé lykillinn að sátt í þessu máli.

Ég er ekki sannfærður um að það yrði mikil sæla með það ef farið yrði fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort efna ætti til aðildarviðræðna af því að hér hafa menn oft verið með spekúlasjónir um það ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði naum. Ég er ekki sannfærður um að það yrði sæla eða sátt um það í samfélaginu ef þjóðin hafnaði því að hefja slíkar viðræður án þess að menn hefðu í raun fengið að sjá hvað væri á borðinu. Ég er þeirrar skoðunar og það er sannfæring mín — af því að hér er mikið talað um sannfæringu — þrátt fyrir afstöðu mína til Evrópusambandsins sem slíks og aðildar Íslands að því að það sé rétt að fara í þennan leiðangur, leiða fram alla efnisþætti málsins og bera þá undir þjóðina. Það er ekkert verri sannfæring en hver önnur að vilja að þjóðin taki af skarið á grundvelli upplýstra upplýsinga.

Við Íslendingar eigum mörg tækifæri til að sigrast á því mótlæti sem við höfum glímt við undanfarna mánuði, á erfiðleikum sem við þurfum líka að takast á við næstu missiri og ár. Við, sem þjóðin hefur kosið til að fara sameiginlega með stjórn landsins, höfum vissulega mismunandi skoðanir á því hvaða leiðir eru bestar inn í framtíðina, en við eigum okkur öll þau markmið sameiginlega að vilja Íslandi allt. Það er tekist á í því máli sem hér er rætt milli flokka og innan flokka, okkur er misjafnlega innanbrjósts og verður það þegar niðurstaða Alþingis í málinu liggur fyrir. Þannig er okkur einnig farið í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Eins og umræður hér hafa endurspeglað eru heitar tilfinningar tengdar þessu máli í okkar röðum, en þær heitu tilfinningar eru líka styrkur og ómetanlegt veganesti inn í óráðna framtíð. (Gripið fram í: En kosningaloforðið?)

Evrópusambandið mun ekki leysa þau viðfangsefni sem á herðum okkar hvíla. Við munum fyrst og fremst þurfa að reiða okkur á okkur sjálf eins og við höfum gert hingað til innan eða utan Evrópusambandsins. Hvernig sem atkvæðagreiðslan fer hér í dag, góðir þingmenn, skulum við sameinast um að berjast fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar, hver á sínum vettvangi og á þann hátt sem hver og einn telur sig best geta gert.