137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þegar tillaga þessi um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur til lokaafgreiðslu vil ég árétta þá grundvallarstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili. Við greiðum atkvæði um það á eftir hvort rétt sé eftir sem áður að láta reyna á í viðræðum hvers konar samningi sé hægt að ná til þess að þjóðin geti að því loknu hafnað honum eða samþykkt hann komi til niðurstöðu. Þingmenn VG eru bundnir af engu nema sannfæringu sinni varðandi það hvort sú leið skuli farin. Hvor tveggja afstaðan, að vera með því eða á móti, er vel samrýmanleg stefnu flokksins. Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.