137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við höfum heyrt hér skýringar hv. þingmanna og hæstv. ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og auðvitað skynjar maður í hvaða vandræðum þeir hv. þingmenn eru sem eru hér í dag í þeirri stöðu að ætla að fylgja fram máli sem þeir hafa enga trú á og ætla að berjast á móti.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp um atkvæðagreiðslu er önnur. Ég vildi árétta þá skoðun mína sem ég hef látið í ljósi við forseta að það sé ekki rétt að láta atkvæðagreiðsluna um breytingartillögur fara fram í þeirri röð sem hér liggur fyrir, þ.e. að bera upp fyrst tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og síðan breytingartillögur hv. þingmanna Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar K. Gunnarsdóttur. Ég tel ótvírætt að tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar og hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur gangi lengra þar sem hún felur það í sér að þingið taki ekki ákvörðun í dag um það að ganga (Forseti hringir.) til aðildarviðræðna heldur gera það síðar að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef talað við sérfræðinga þingsins og þeir eru annarrar skoðunar en ég vildi halda þessu sjónarmiði til haga við þessa umræðu.