137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram í umræðunni að skilyrðin sé að finna í nefndaráliti meiri hlutans. Ef svo er væri þingmönnum í raun í lófa lagið að samþykkja þessa breytingartillögu. Það er ekki gert og það er að mínu mati til marks um það að skilyrðin er hvergi að finna heldur óljós markmið sem á að fylgja. Við verðum líka að taka tillit til þess að í nefndarálitinu segir einmitt berum orðum að ekki eigi að fara með tilgreind skilyrði í þessar aðildarviðræður.

Svo vil ég taka það fram að hér var haft á orði áðan að fylgja ætti einhvers konar ramma og orðið rammi þýðir að mínu mati ekki það sama og orðið skilyrði eins og kemur mjög skýrt fram í flokksályktun Framsóknarflokksins. Ég segi já við þessari breytingartillögu.