137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ef við höfum lært eitthvað af hruninu síðastliðið haust er það ákall um ný vinnubrögð. Þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt þann stórhug að koma fram með málið í samstöðu og sátt. Ég tel að eitt af því sem við eigum að hafa lært sé ákall þjóðarinnar um að fá að taka í auknum mæli þátt í því ferli sem nefnist lýðræðislegt ferli, að fá að taka þátt í ákvörðunarferlinu um framtíð þjóðarinnar í stórum grundvallarmálum. Hér erum við einmitt að ræða um eitt af þessum stóru grundvallarmálum sem þjóðin vill fá að taka þátt í.

Ég vil nýta þennan tíma, frú forseti, til að skora á þingmenn hér inni að leyfa þjóðinni að hafa upphafsorðið og lokaorðið í allri þessari vegferð. Það er mikilvægt að þingið sýni þennan vilja okkar í verki og greiði atkvæði með tillögum okkar hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Leyfið þjóðinni að eiga upphafs- og lokaorðið í þessu, hættulegra er málið ekki.