137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Á milli Icesave-málsins og ESB liggja ótal þræðir. Ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum er aðgöngumiðinn inn í ESB, rándýr aðgöngumiði sem ég er ekki tilbúin að láta þjóðina greiða. Mér finnst vel koma til greina að sækja um aðild að Evrópusambandinu en við eigum ekki að gera það með Icesave-líkið í farteskinu. Í gær reyndum við að losa okkur við það lík svo Evrópulestin gætu haldið áfram. Við vildum fresta Icesave-samningnum svo þinginu gæti gefist tími til að fá botn í málið því að það er flókið og framlögð gögn stemma ekki og daglega koma fram ný gögn sem varpa ljósi á málið. Það tókst ekki. Því verðum við að reyna að halda áfram með líkið og kryfja það til mergjar en stöðva ESB-lestina. Þar liggur sannfæring mín. Þjóðin fær þá að kjósa um það hvort rétt er að fara í aðildarviðræður og ég treysti henni fullkomlega til þess. (Forseti hringir.) Því segi ég já við tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu til að reyna að rjúfa tengslin milli Icesave-málsins og ESB.