137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég segi já við þeirri tillögu að þjóðin geti og megi greiða atkvæði um það hvort hún í fyrsta lagi vilji að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu til framtíðar og afsali sér hluta af sjálfstæði sínu og fullveldi. Í öðru lagi hvort þjóðin vilji afsala sér til framtíðar auðlindum sínum. Í þriðja lagi hvort núna sé rétti tíminn til að verja miklum fjármunum, orku og tíma ráðuneyta til að vinna að umsókn. Í fjórða lagi hvort við eigum núna eftir áfall af hruninu að sækja um úr mjög veikri stöðu. Í fimmta lagi hvort það sé sæmandi að sækja um aðild að þeim klúbb sem hefur kúgað okkur til að samþykkja Icesave-samningana.

Ég tel að þjóðin eigi að taka ákvörðun um það hvort hún vilji að ganga í Evrópusambandið. Ég segi já.