137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla um umsókn um aðild að Evrópusambandinu hefði verið óþörf ef þjóðin gæti verið þess fullviss að það umboð sem þeim sem sjá um samningana væri veitt væri nógu afmarkað til að hægt væri að treysta því að grundvallarhagsmunum þjóðarinnar yrði ekki fórnað í slíkum aðildarviðræðum.

Nú er ljóst að umboðið verður ekki skilyrt og þar af leiðandi að lagt var upp í þennan leiðangur með hætti sem mjög erfitt er að gera sér grein fyrir hvað hafi í för með sér. Þingið virðist eiga mjög erfitt með að taka afstöðu til málsins og ýmsir þingmenn greiða atkvæði um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem eru í raun andvígir aðild. Þegar málatilbúnaður er með þessum hætti tel ég ekki um annað að ræða en þjóðin fái að segja skoðun sína og taka þessa ákvörðun þegar þingið er ekki fært um það. Ég segi já.