137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:32]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að okkur sem þjóð sé best borgið utan Evrópusambandsins og hafna því aðildarumsókn að sambandinu. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar. Skoðanir fólks í þessu máli eru skiptar í öllum flokkum. Umsókn að sambandinu mun því kljúfa þjóðina í fylkingar á sama tíma og hvað mest á ríður að þjóðin standi þétt saman til að komast sem fyrst út úr þeim miklu efnahagsþrengingum sem við blasa á næstu árum.

Við þessar aðstæður eigum við að leggja til hliðar allar hugmyndir um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í dag höfum við hvorki samningsstöðu, tíma né fjármagn til að leggja í umsóknarferli og við megum síst við því þegar mest á ríður að við vinnum okkur út úr efnahagshruninu á okkar eigin forsendum, á forsendum til sjálfbærrar þróunar. Ég greiði því atkvæði gegn öllum tillögum sem fyrir liggja um mismunandi leiðir til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Ég segi nei.