137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:34]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar við tökum ákvarðanir sem miklu skipta viljum við vanda til þeirra og við viljum taka þær með upplýstum hætti. Fjölskylda sem ákveður að kaupa sér húsnæði án þess að skoða það gerir það sjaldnast sjálfri sér til góðs. Það er mikilvægt að við leggjum traustan grunn og kynnum okkur, eins og sú fjölskylda mundi gera, hvernig húsaskipan er háttað, hvort húsnæðið henti og kynnast til hlítar kostum og göllum þeirra vistarvera sem fjölskyldan veltir fyrir sér að gera að sínum til lengri tíma litið. Sú breytingartillaga sem hér er lögð til atkvæða gerir ráð fyrir að ekki fari fram þessi nauðsynlega skoðun og könnun. Það er mjög mikilvægt að þjóðin fái að taka upplýsta ákvörðun um aðildarsamning þegar hann liggur fyrir og við vitum kost og löst á aðild að fullu og öllu leyti. Því segi ég nei.