137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um það grundvallaratriði að Íslendingar fái að ákveða hvernig sá samningur er, hvernig þeir taka þeim samningi sem kemur út úr samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hér er farið fram á að Íslendingar hafi á því rétt með bindandi atkvæðagreiðslu að ákveða hvort ganga eigi í Evrópusambandið. Ég trúi því ekki að þingmenn séu ekki reiðubúnir til að samþykkja þessa tillögu. Það er mín einlæga skoðun og hefur alltaf verið að til þess að hægt sé að taka svona stórt skref verði þjóðin að fá að ráða því í lokin hvernig farið skuli með það mál. Og ég hvet þingmenn sem eftir eiga að greiða atkvæði að hugsa til þess hvað við erum að greiða atkvæði um hér núna. Það er algjört grundvallaratriði í þessu máli að í lok þessa samningaviðræðuferlis (Forseti hringir.) fái Íslendingar allir tækifæri til þess að taka afstöðu í þessum samningaviðræðum. Ég segi já.