137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þessi tillaga sjálfstæðismanna og röksemdafærsla hefur tvo stórfellda ágalla. Í fyrra lagi að það kæmi í veg fyrir það að þjóðin léti strax sitt álit í ljós eftir að aðildarsamningi hefði verið landað að undangenginni kynningu og umræðu og tefði það að þjóðin gæti sagt sitt orð og í seinna laginu horfir hún fram hjá þeirri augljósu staðreynd að ef þjóðin fellir slíkan samning eru stjórnarskrárbreytingar óþarfar og þarf ekki að ráðast í það ferli. Þessa tvo stóru ágalla hefur þessi tillaga. En hún snýst ekki um það hvort það eigi að vera þjóðin sem ráði niðurstöðunni. (Gripið fram í: Ó, jú.) Það eru allir sammála um að verði. (Gripið fram í: Nei, nei.) Og tillaga stjórnarinnar gengur út á það. (Gripið fram í: … að ráða.) (Forseti hringir.) Frú forseti. Ég heyri að það er auðvelt að ræða þetta málefnalega hér í salnum í dag. (Gripið fram í.) Það er sem betur fer þannig að þótt menn séu ósammála um margt í þessu hefur enginn mælt því í móti að lyktir málsins eigi að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég tel að þetta sé gölluð aðferð og segi nei.