137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér eitt stærsta mál Íslandssögunnar, um það hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hér hafa verið lagðar fram góðar breytingartillögur varðandi þetta mál sem lagt hefur verið fram og það hryggir mig að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki kynnt sér þessar breytingartillögur betur vegna þess að í atkvæðaskýringu hans hér að framan kom fram að hann hreinlega skilur ekki þessa breytingartillögu sjálfstæðismanna. Að sjálfsögðu gengur hún út á það að fram fari bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem íslenska þjóðin fái að ráða lyktum þessa máls. Það er það sem þetta gengur út á. Ríkisstjórnin hefur fjölyrt hér um lýðræði, gagnsæi í vinnubrögðum og framlagningu gagna. Hverjar eru efndirnar? Allar þessar yfirlýsingar eru í orði en ekki á borði og þess vegna verður að samþykkja þessa tillögu þannig að það verði í raun þjóðin sem fái að hafa síðasta orðið. Ég segi því já.