137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur um að samningur um aðild að Evrópusambandinu verði lagður í dóm þjóðarinnar. Það er enginn ágreiningur um það og hefur ekki verið í fjölda ára svo ég viti. Það er hins vegar ágreiningur um það í hvaða röð það sé gert og hér hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram það sem ég vil kalla sýndartillögu um það hvaða leið þetta á að vera. Þetta var mikið rætt í utanríkismálanefnd og meiri hlutinn var á því að fyrst komum við heim með samning. Við leggjum hann í dóm þjóðarinnar. Ef hann er samþykktur þá verða gerðar nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar og þá fara náttúrlega fram kosningar eins og lög gera ráð fyrir. Þess vegna hafna ég þessari tillögu eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar.