137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:29]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það blasir við mér og mörgum fleirum að þessi aðildarumsókn gengur gegn brýnum hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar og þar með landsbyggðarinnar. Það er borin von, það er tálsýn, blekking að við fáum undanþágur í þeim efnum frá grundvallarreglum Rómarsáttmálans, fjórfrelsinu, frá hinu sameiginlega markaðssvæði. Umsóknin felur í sér að hafin er vegferð sem vegur að sjálfstæði og fullveldi landsins. Umsóknin er í mótsögn við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og ég skil hana. Umsóknarferlið og allt sem því fylgir hindrar að við getum unnið af þeim krafti við að bjarga heimilum landsins og atvinnulífinu sem okkur er lífsnauðsynlegt. Málið er auk þess til þess fallið að kljúfa þjóðina þegar aldrei er meiri þörf á samstöðu en nú.

Ég ítreka fyrri atkvæðaskýringu mína, rökin eru ótal fleiri fyrir afstöðu minni. (Forseti hringir.) Ég sem alþjóðasinni segi nei.