137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:40]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Nú fer fram ein af sögulegri atkvæðagreiðslum og mikilvægari í þingsögunni. Gangi hún fram markar hún að mínu mati upphafið að nýjum tímum á Íslandi. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er að mínu mati eitt stærsta framfaraskref sem íslensk þjóð hefur stigið um árabil. Um það vitnar sá breiði stuðningur sem er við málið úti í samfélaginu, við umsókn um aðild að Evrópusambandinu og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Sá breiði stuðningur gengur þvert á flokka og hagsmuni á vinnumarkaði og hefur þeirri skoðun vaxið mjög fiskur um hrygg á síðustu mánuðum.

Um leið vakna að sjálfsögðu margar spurningar sem svara verður í umsóknarferlinu sem lúta að sjálfum grundvelli þjóðarinnar, yfirráðum yfir auðlindum okkar og stöðu landbúnaðarins. Þetta eru mikil álitaefni sem lúta að kostum og göllum aðildar. Þau álitaefni verða aldrei leidd til lykta og um þau getum við deilt um árabil nema við göngum til viðræðna við Evrópusambandið um aðild og kjósum síðan um niðurstöðuna. Ég segi að sjálfsögðu já við þessari tillögu.