137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Því miður fór það svo í atkvæðagreiðslu í þingsal að ríkisstjórnarflokkarnir misstu af því tækifæri að ná breiðri samstöðu um að farið væri af stað í það að sækja um aðild að ESB. Ég hef verið þeirrar skoðunar að fyrr eða síðar hlyti að koma að því að við Íslendingar mundum gera slíkt og það er tvennt sem hefur ráðið því. Annars vegar vegna gjaldmiðilsmála vorra og hins vegar, og það er mikilvægt atriði, vegna þess að ég hef talið að við yrðum að ná einhvers konar niðurstöðu í þessu máli og þjóðin yrði að fá að segja sína skoðun.

Nú hefur málum verið svo fyrir komið að hér stefnir í að það verði samþykkt leið sem er m.a. með þann galla sem ég hef áður vikið að, að t.d. hæstv. ráðherrar Vinstri grænna geta þvingað fram þá ákvörðun að samningaviðræðum verði hætt og samningurinn komi ekki til þjóðarinnar. Jafnframt hefur það verið fellt núna að það verði tryggt að íslenska þjóðin hafi síðan lokaorðið. Með öðrum orðum, það erum við hér inni sem bæði eigum að ráða því hvort samningurinn komi til þjóðarinnar og hvort eigi að samþykkja hann. (Forseti hringir.) Þessu er ég ekki sammála og því, frú forseti, segi ég nei.