137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

greiðslur af Icesave-láni.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að Icesave-málið hvílir mjög þungt á þingmönnum, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég tel eðlilegt að þingmenn fái það svigrúm sem þarf til að skoða þetta mál í botn. Þegar liggur fyrir mjög mikið af gögnum í þessu máli eins og hv. þingmaður nefndi. Það liggur fyrir ítarleg úttekt að því er varðar Seðlabankann á fjárhagsskuldbindingum sem Íslandi tæki á sig með Icesave-samningnum og ég hef heyrt að líka hafi verið óskað eftir því að hagfræðistofnun mundi skila slíku áliti og ég tel alveg sjálfsagt að verða við því.

Hv. þingmaður byrjaði á að nefna að ESB-aðild mundi styrkja gengið og breyta öllu. Við erum ekki gengin í Evrópusambandið en ég hef haldið því fram (Gripið fram í: … umsóknin.) að með því að leggja fram umsóknina mundi það hjálpa okkur í stöðugleikanum. Það er nýlega búið að samþykkja þessa umsókn (Gripið fram í.) þannig að við skulum bara sjá til.

Það er ýmislegt sem hefur gerst á undanförnum vikum og mánuðum sem er til þess fallið að hjálpa okkur í að endurreisa hér íslenskt efnahagslíf. Það er óþarfi að fara yfir það en ég nefni þó stöðugleikasáttmálann og þá braut sem við erum með bankana og endurreisn þeirra á. Það held ég að skipti verulegu máli. Á næstu dögum verður líka sett fram áætlun um gjaldeyrishöftin sem skiptir miklu máli, en það er líka mikið í húfi að við samþykkjum Icesave-samninginn. Ég tel það ekki kost í stöðunni að fella þann samning en auðvitað fær þingið hann til meðferðar og hann er undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis á ríkisábyrgðinni. Auðvitað er eðlilegt að Alþingi skoði þá umgjörð sem það vill hafa um þann samning og veit ég ekki betur en að þingið sé að skoða það. (Forseti hringir.) Ég mundi óska eftir því að það yrði skoðað það vel að breið samstaða gæti náðst um samninginn.