137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

greiðslur af Icesave-láni.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég skil ekki almennilega þessi orð hv. þingmanns vegna þess að það er auðvitað Alþingi sem hefur síðasta orðið að því er þetta mál varðar. Auðvitað hef ég tekið eftir því að ýmis álitamál hafa komið upp í þinginu varðandi þennan samning sem þingnefndir eru eðlilega að skoða. Það er eðlilegt, eins og ég sagði, að Alþingi setji þannig umgjörð um þennan samning sem það er sátt við, en ég sagði líka að ég teldi að það væri afar óheppilegt ef þessi samningur yrði felldur og því mundi ég kjósa að þingmenn einbeittu sér að því að gera þessa umgjörð þannig úr garði að sem flestir gætu sætt sig við hana.

Það er alveg ljóst að varðandi t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er unnið þar að endurskoðaðri áætlun sem á að taka fyrir 3. ágúst. Ég er ekki að segja að menn eigi að horfa í þá dagsetningu, en það er ákveðin hætta á því að þá frestist líka endurskoðun varðandi lánasamningana við Norðurlöndin. Þetta gæti haft áhrif á áhuga kröfuhafa bankanna um að gerast eigendur í Kaupþingi og Íslandsbanka. (Forseti hringir.) Þetta gæti haft neikvæð áhrif á lánshæfismat ríkisins svo dæmi sé tekið og gæti ég nefnt nokkur atriði í viðbót. Það er mikið í húfi en þetta er vandasamt mál og menn eiga að taka þann tíma sem þeir þurfa (Forseti hringir.) til að fara yfir þetta.