137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

listaverk í eigu gömlu bankanna.

[10:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um listaverk í eigu gömlu bankanna. Það var tilkynnt á mánudaginn að langþráð endurfjármögnun bankanna og efnahagsreikningur mundu liggja fyrir 14. ágúst nk. og jafnframt var kynnt að kröfuhöfum gefist kostur á að kaupa allt að 90% hlut í nýju bönkunum tveimur, Íslandsbanka og Kaupþingi. Þar með yrðu, ef það gengur eftir, tveir bankanna komnir í einkaeign aftur fyrir áramót eða í byrjun næsta árs en sl. haust þegar bankarnir lentu óforvarindis í eigu ríkisins komust um 4.000 listaverk sem voru í eigu þeirra aftur í eigu ríkisins. Þessi listaverk höfðu flotið með í einkavinavæðingu bankanna 2002 og margir töldu að hefðu verið mikil mistök og vildu að þetta væri áfram í eigu ríkisins.

Það voru flutt tvö þingmál sl. haust af þessu tilefni og viðskiptanefnd fékk þau til umfjöllunar og flutti einróma þingsályktunartillögu sem því miður dagaði uppi á þingi um að fram færi listfræðilegt mat á söfnunum í því skyni að undirbúa kaup á þeim sem teldust þjóðargersemar.

Hinn 20. febrúar svaraði hæstv. menntamálaráðherra því til í þingsal að hún hefði hug á því að umrædd verk færðust í hendur ríkisins þegar efnahagsreikningur bankanna lægi fyrir. Nú er fyrirséð að hann mun liggja fyrir 14. ágúst nk. þegar ríkið mun greiða 271 milljarð inn í bankana og því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvað verður þá um listaverkin?