137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

innstæðutryggingar.

[10:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum gengur mikið á í efnahagslífi okkar eins og búið er að vera síðustu mánuði. Það hefur verið í fréttum að menn telja að nú sé að nálgast og væntanlega komin fyrir vind, endurreisn íslenska bankakerfisins og þar er rætt um að erlendir aðilar muni eignast bankana að einhverju leyti eða öllu leyti o.s.frv.

Í október á síðasta ári þegar allt dundi á okkur lýstu stjórnvöld því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum, sparisjóðum og öðru slíku væru tryggðar að fullu, þ.e. innstæðurnar væru tryggðar líka umfram það sem tryggingarsjóðurinn ábyrgist. Því langar mig að spyrja og velta því upp við hæstv. fjármálaráðherra hvort þessar yfirlýsingar gildi enn þá og vil þá gjarnan fá hann til að segja að allar innstæður fyrirtækja og einstaklinga í þessum bönkum séu tryggðar óháð því hver muni eignast bankana. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fá þetta alveg á hreint. Ég hef hlustað á ræður hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðlum um þetta mál, kannski ekki náð að fóta mig alveg nákvæmlega í því hvað felst í orðum hans, hvort hann er að tala um eingöngu það sem tryggingarsjóðurinn ábyrgist eða allar innstæður, eins og rætt var um og gefin fyrirheit fyrir tæpu ári. Ég vil því gjarnan að það sé sett á prent í þingtíðindum og fyrir okkur þingmenn, að þetta eigi við enn þá og spyr því fjármálaráðherra: Eru allar innstæður fyrirtækja og einstaklinga tryggðar í íslenskum bönkum og þá á ég við á Íslandi og þeim bönkum sem verða reknir áfram á Íslandi, eins og gefin voru fyrirheit um?