137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

frumvarp um Bankasýslu ríkisins.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur mikið gengið á að undanförnu og lítur út fyrir að náðst hafi jákvæð niðurstaða í því sem snýr að bönkunum. Við erum að tala um miklar breytingar sem urðu fyrir nokkrum dögum og þá er ég að vísa til samkomulagsins við kröfuhafana sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti fyrir nokkrum dögum. Áður en það lá fyrir hafði hæstv. ráðherra talað fyrir nokkru sem heitir Bankasýsla ríkisins. Hún átti að halda utan um alla þrjá viðskiptabankana, að auki ríkissparisjóðina og eignaumsýslufyrirtæki sem átti að hafa umsjón með lánasöfnun skuldbærra fyrirtækja og var það eðli málsins samkvæmt afskaplega stórt verkefni.

Eftir þessa breytingu hefur verið upplýst að eignaumsýslan verður ekki stofnuð. Hún er uppi í hillu hjá fjármálaráðherra og í rauninni er bæði Kaupþing og Íslandsbanki þar af leiðandi ekki undir þessari stofnun og má því í rauninni segja að Bankasýsla ríkisins sé orðin að Landsbankasýslu ríkisins ef áfram verður haldið með málið. En ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti virkilega verið að menn ætli að halda áfram með málið eins og lagt var upp með.

Nú er augljóst að það er orðin gerbreyting hvað þessa hluti varðar þannig að allt sem þessu máli tengist, hvort sem það er Bankasýslan eða eigendastefnan er í rauninni orðin algerlega úrelt fyrirbæri. Ég vil fá að vita það frá hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til þess að hægja aðeins á og bíða með þessa hluti vegna þess að forsendur hafa augljóslega algerlega brugðist.