137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

frumvarp um Bankasýslu ríkisins.

[10:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, ég tel að forsendur hafi ekki breyst í neinum grundvallaratriðum og það er ærið verkefni með að fara að halda eignarhlutinn 100% eign í langstærsta banka landsins, sem verður Landsbankinn, og ekkert bendir til annars en verði áfram í fullri eigu ríkisins, enda svo sem aldrei reiknað með öðru. Í öðru lagi verður ríkið með beinan eða óbeinan eignarhlut á móti kröfuhöfum, bæði í Kaupþingi og Íslandsbanka, þ.e. fari svo að þeir samþykki samningana frá því um helgina. Geri þeir það ekki mun ríkið halda áfram fullri fjármögnun í þeim bönkum þannig að enn vitum við ekki fyrir víst hvernig það mál endar. Í fjórða lagi mun ríkið væntanlega gerast meðeigandi í allmörgum sparisjóðum á næstu vikum og mánuðum.

Ég tel að það sé fullt tilefni áfram til þess að koma Bankasýslunni á fót og búa með faglegum og vönduðum hætti um eignarhald ríkisins í fjármálastofnunum sem allt bendir til að verði umtalsvert á komandi árum. Sama gildir um eignaumsýslufélagið. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að það hafi verið sett upp í hillu. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að stofna það samkvæmt lögum sem þegar hafa verið sett. Það mun síðan einfaldlega reyna á hversu mikil verkefni berast því. Ég hef margsagt það hér og get endurtekið það einu sinni enn hv. þingmanni til ánægju að glaðastur manna yrði ég ef það fær aldrei neitt að gera og málin leystust án þess að þurfa neitt að fara í þann farveg. En það er þó þegar þannig að við höfum jafnvel í huga vissar eignir eða beinar og óbeinar eignir sem ríkið heldur sem gætu átt heima í eignaumsýslufélaginu. Ég held að það hafi í grundvallaratriðum ekkert breyst annað en kannski það að við getum gert okkur vissar vonir um að umfang aðkomu ríkisins að þessum málum verði minna en menn reiknuðu kannski með að yrði fyrir nokkrum vikum eða mánuðum. Og eru þá ekki allir sáttir?