137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

frumvarp um Bankasýslu ríkisins.

[11:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Það er mikil frétt að það hafi, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, í grundvallaratriðum ekkert breyst. Fyrir nokkrum dögum var hæstv. ráðherra að fara nákvæmlega yfir það með okkur hvað hafði gerst í grundvallaratriðum. Fulltrúi hans frá ráðuneytinu kom og sagði að það hefði verið hætt við eða staldrað við að stofna eignaumsýslufélagið, eðli málsins samkvæmt. Og ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hér ætla menn að stofna 80 milljóna króna stofnun sem er á fjárlögum og mun kosta 80 milljónir króna utan um Landsbankann. (Gripið fram í: Mikið af peningum til.) Bara svona til að hafa eina fína stofnun, væntanlega af því að við eigum svo gríðarlega mikið af fjármunum og það er engin ástæða til þess að fara að endurskoða þessa hluti eitthvað þó svo að, ja, ef það er eitthvað að marka hæstv. fjármálaráðherra eru allar líkur á því að ríkið muni ekki þurfa að yfirtaka (Forseti hringir.) nema einn af þrem bönkum, en ekki þrjá eins og lagt var upp með.