137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

atkvæðagreiðsla um ESB, nefndastörf o.fl.

[11:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Á fimmtudaginn var varð ég ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum vör við atburði hér í þingsalnum sem samkvæmt skilgreiningu á atferlisfræði er aðeins hægt að skilgreina sem einelti á vinnustað. Í miðri atkvæðagreiðslu voru þingmenn annars stjórnarflokksins sem vitað var að ætluðu að segja nei eða sitja hjá við atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB, kallaðir út úr þingsalnum og haft í hótunum við þá. Þá heyrði ég greinilega hv. þingmenn hafa í hótunum við aðra hv. þingmenn í þingsalnum. Þetta gekk svo langt að einn hv. þingmaður var dreginn út úr salnum í miðri atkvæðagreiðslu af hæstv. forsætisráðherra og hefðu sennilega fæstir tekið eftir því nema svo óheppilega vildi til (Forseti hringir.) að hv. þingmaður var fyrir tilviljun sá sem fyrstur átti að greiða atkvæði.

Ég legg til að við atkvæðagreiðslu varðandi Icesave verði þingmönnum gert að sitja í sætum sínum á meðan á atkvæðagreiðslu stendur og að virðulegur forseti beiti sér fyrir því (Forseti hringir.) að hér verði tekið upp eineltisprógrammið Olweus sem hefur gefið svo góða raun í skólum landsins. [Hlátrasköll í þingsal.] Einelti hjá æðstu stofnun landsins ætti ekki að líðast í nútímasamfélagi.