137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

umræður um fundarstjórn.

[11:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Menn gera sér að leik að ræða af miklum móði um fundarstjórn forseta og rétt áðan var fundað niðri um fundarstjórn forseta, þá deilu sem hér hefur staðið í morgun. Þar varð niðurstaðan að fundað yrði sérstaklega um málið síðar í dag með forseta og formönnum þingflokka af því að aldrei verður dregin endanleg lína á milli þess sem er störf þings og þess sem er fundarstjórn forseta. Tilraun var gerð til þess fyrir tveimur árum með mjög misheppnuðum nýjum lögum um þingsköp sem þáverandi forseti leiddi til lykta. Þau gerðu að verkum að þinghald varð að mörgu leyti enn þá ruglingslegra heldur en áður. Deilur hafa aukist þrátt fyrir að fundarstjórn forseta sé með allra besta móti á þessu þingi núna. En þessi þingsköp eru misheppnuð. Þau ber að leiðrétta. Þau ala af sér deilur dag eftir dag sem gera ekkert annað en þvælast fyrir þinghaldi. Þetta ætlum við hins vegar að ræða á eftir með forseta og þingflokksformönnum þannig að við hljótum að geta haldið áfram og farið að ræða þá myndarlegu og mikilvægu dagskrá sem hérna liggur fyrir.