137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[11:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Gott samstarf hefur verið í menntamálanefndinni um þetta mál og ég vil þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir öflugt starf í þá veru. Við fengum á fund nefndarinnar góða gesti og allir voru sammála um að þetta væri framfaramál.

Hins vegar höfðum við áhyggjur af því að þetta gæti haft þær afleiðingar að skilyrði yrðu þrengd fyrir þá sem eiga kost á því að taka lán hjá lánasjóðnum og þess vegna settum við inn í nefndarálitið skýra afstöðu nefndarinnar um þetta atriði. Gríðarlega mikilvægt er að þessi breyting varðandi ábyrgðarmennina hafi ekki þau áhrif að skilyrðin verði þrengd þannig að mér fannst full ástæða til að hnykkja á sjónarmiði nefndarmanna, sem allir voru einhuga um í nefndinni. Við sjálfstæðismenn, ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, skrifuðum undir nefndarálitið með fyrirvara varðandi það að útreikningar á kostnaði sem breytingin hefur í för með sér liggja ekki fyrir. Ekki var hægt að taka saman neinar tölur vegna þess að ekki voru ekki til gögn um það í hvaða tilfellum hefur reynt á ábyrgðarmannakerfið og hversu oft hefur þurft að ganga að ábyrgðarmönnunum til þess að innheimta námslánin.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægt þegar við erum í þessari stöðu, og í rauninni alltaf þegar við erum að taka ákvarðanir hér á hinu háa Alþingi, að við áttum okkur á því hvaða kostnað ákvarðanirnar hafa í för með sér. Í þessu tilfelli höfum við ekki þær tölur í höndunum og það er miður en engu að síður er málið ágætt og við styðjum það í sjálfu sér. Það er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega á tímum sem þessum þegar þrengir að í þjóðarbúskapnum, að við séum full ábyrgðarkenndar varðandi kostnaðinn og ég veit að allir nefndarmenn voru sammála um að betra hefði verið að hafa þetta á hreinu. Því miður var ekki hægt að leggja fram gögn um kostnaðinn. Fyrirvari okkar lýtur að þessu atriði og því að við sjálfstæðismenn í nefndinni óskuðum eftir að hægt yrði að átta sig betur á kostnaðinum.

Staða lánasjóðsins er sterk og aðrir sjóðir á Norðurlöndunum, hjá stallsystkinum okkar þar, hafa litið hýru auga til ábyrgðarmannakerfis okkar Íslendinga. Nú verður breyting á því og ég vonast til að staða sjóðsins verði áfram sterk þrátt fyrir þessar breytingar sem vissulega eru í rétta átt fyrir lánþegana.

Virðulegi forseti. Ég hafði bara hugsað mér að gera aftur grein fyrir þessum fyrirvara okkar sjálfstæðismanna þannig að það væri ljóst að kostnaðurinn við þessar breytingar liggur ekki fyrir.