137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[11:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Afnám kröfunnar um ábyrgðarmenn á námslán er mikið framfaraskref. Um er að ræða mikla umbótalöggjöf sem verður til þess að styrkja mjög stoðir Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þeirrar undirstöðu sem hann er undir hið félagslega kerfi sem menntakerfi okkar hvílir á, þ.e. háskólanám og framhaldsskólanámið að hluta. Krafa um ábyrgðarmenn á námslán hefur vegið að félagslegu hlutverki sjóðsins um árabil. Árin 2003, 2004 og 2005 fluttum við nokkrir þingmenn Samfylkingar frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem lagt var til afnám ábyrgðarmannakröfunnar og nokkrar aðrar breytingar sem hv. þm. Skúli Helgason rakti ágætlega áðan, þær munu vonandi ganga fram síðar. Undirstaða þess lagafrumvarps og meginkrafa var að ábyrgðarmannakerfið yrði afnumið að fullu. Við þekkjum þess öll dæmi að námsmenn hafi ekki getað fengið námslán, a.m.k. ég en í gegnum árin hafa þó nokkrir leitað til mín, af því að þeir hafa ekki haft ábyrgðarmann að leita til og það er heilmikið mál að leita til einhvers og biðja hann að skrifa upp á lán.

Þetta er að sjálfsögðu áhætta sem lánastofnanir, að ég tali ekki um námslánastofnanir, eiga að sjálfsögðu að taka sjálfar. Meginþorri allra stendur í skilum, það eru örfá prósent, ef í prósentum telst, sem verða fyrir þeim skakkaföllum í lífinu, ógæfu, óheppni, slysum eða atvinnumissi, að þeir geti ekki staðið í skilum með námslán. Þetta er sá hópur fólks sem er trúlega hvað best staddur með að borga af lánum sínum, fólk sem sækir sér menntun sem gerir það að verkum að það stendur betur á vinnumarkaði.

Í vor voru líka samþykkt mikil umbótalög þegar frumvarp frá þáverandi. hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni var loksins samþykkt eftir að hafa verið flutt hérna átta eða níu sinnum á einum og hálfum áratug. Þá þrengdi mjög að ábyrgðarmannakröfu banka og lánastofnana almennt en þetta er ósiður í bankakerfi sem á að heyra sögunni til. Lánastofnanir eiga að vega og meta hvern lántakanda og taka sjálfar áhættuna af því að lána honum. Það mundi örugglega líka gera að verkum að fjármálafyrirtæki almennt yrðu varfærnari í útlánum ef þau hefðu ekki ábyrgðarmanninn að að ganga ef illa færi. Sérstaklega er mikilvægt að afnema ábyrgðarmenn í námslánakerfinu. Þess vegna fluttum við þetta mál nokkur ár í röð og nokkrum árum þar áður hafði þáverandi þingmaður Sigríður Jóhannesdóttir flutt það ásamt öðrum breytingartillögum um lánasjóðinn. Þess vegna fagna ég alveg sérstaklega að þetta mál gangi hérna fram. Þetta er félagslegt réttlætismál, umbótamál, og óska ég hæstv. ráðherra og menntamálanefnd allri og þingheimi til hamingju með að ná að ljúka þessu mjög svo góða máli.