137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Málið sem við ræðum er viðbrögð löggjafans við því hruni sem varð sl. haust þegar við upplifðum mikið hrun á eignum, mikið hrun á atvinnu, mikið hrun í atvinnulífinu en sérstaklega mikið hrun á trausti. Tortryggnin var mjög ríkjandi gagnvart því sem hafði gerst og fljótlega eftir hrunið, nokkurn veginn um leið og rykið hafði sest, setti Alþingi í gang rannsóknarnefnd til að rannsaka það sem gerst hafði og síðan sérstakan saksóknara til að kæra þá sem hugsanlega hefðu brotið lög í aðdraganda hrunsins og jafnvel valdið því að einhverju leyti.

Frumvarpið sem við ræðum hér er angi af þessu og dýpkun á því að byggja upp traust. Traustið byggist á því að menn hafi trú á því að hafi einhver brotið lög sé honum refsað, ekki vegna refsigleðinnar heldur til að gefa merki um að menn eigi ekki að brjóta lög í atvinnulífinu, þar eigi að ríkja heiðarleiki og traust sem byggist á sanngirni og heiðarleika.

Frumvarpið sem hér um ræðir byggist á norskri reynslu, þ.e. þær breytingar sem hér er verið að gera. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga og tel að það sé mjög mikilvægt. Hins vegar þurfa menn alltaf að gæta að því eftir hrun, þegar tortryggnin verður svona mikil, að halda sig við réttarríkið. Mjög mikilvægt er að við förum ekki út fyrir það og að við gætum að því að borgarinn sé tryggður með þeim tækjum sem réttarríkið hefur.

Þegar maður stelur sjónvarpi eða bíl eða einhverju slíku er yfirleitt mjög einfalt að sjá það. Hann tók sjónvarp og það hvarf og auðvelt er að rannsaka það. Hins vegar eru efnahagsbrot miklu flóknari og erfiðara að rannsaka þau. Þess vegna stöndum við frammi fyrir ákveðnum vanda. Eignin sem stolið var er oft og tíðum ósýnileg, það eru huglæg virði, það eru rafrænar færslur og stundum þarf að kanna ekki bara eina eða tvær, hundrað eða þúsund heldur hundruð þúsunda færslna til að finna þá færslu sem virkilega leiðir til þess að hægt sé að sanna sök í málinu. Þetta gerir þessi brot svo miklu erfiðari heldur en venjulegu brotin þar sem nægir að finna sjónvarpið og rekja fótsporin í snjónum sem menn skilja kannski stundum eftir. En það leiðir líka til þess að menn hafa ekki eins mikinn skilning á því hvað langan tíma tekur að rannsaka þessi mál og að sanna sekt. Þess vegna eru menn að setja enn meiri kraft í þetta og ég er mjög sáttur við það. Ég held að þeim peningum sé vel varið vegna þess að þeir byggja upp traust í þjóðfélaginu, sem er nauðsynlegt til að hjólin fari aftur að snúast, fyrirtækin fari í gang, geti farið að ráða fólk og vinna þá bug á atvinnuleysinu sem aftur lagar stöðu heimilanna, þannig að þetta hangir allt saman. Þetta frumvarp er til að stuðla að traustinu og til að atvinnulífið fari aftur í gang, það er verið að gera ýmislegt jákvætt í því sambandi líka. Ég held að það sem hæstv. ríkisstjórn gerði gagnvart bönkunum hafi verið jákvætt og skref í þá átt að horfa til framtíðar. Ég held að þetta frumvarp sé líka þáttur í því.

Eftir 2–3 ár þegar menn eru komnir út úr þessu, vonandi — og örugglega, munum við geta horft til framtíðar og þá má eflaust slaka á öllum þessum saksóknum sem talað er um í frumvarpinu en þangað til er nauðsynlegt að saksóknarar starfi og þeir starfi vel.

Ég hef reyndar dálitlar athugasemdir við að sérstaki saksóknarinn geti tekið mál til baka sem hann hefur úthlutað og ekki er talað um að hann þurfi að rökstyðja það neitt sérstaklega. Ég bendi á að kannski hefði þurft að geta um að hann þyrfti að rökstyðja þá atburðarás til að eyða tortryggni um að hann sé hugsanlega að taka til baka einhver mál sem þola ekki dagsins ljós.