137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi koma hingað upp til þess að taka undir eitt atriði í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Það varðar þessa spurningu um hvaða áhrif versnandi efnahagsástand, kreppan, kemur til með að hafa á aðra brotaflokka og mikilvægi þess að aðrir þættir löggæslunnar verði ekki skornir niður heldur efldir. Ég held að það sé mikilvægt að við skoðum einmitt í þessu samhengi að hættan er sú að brotatíðni fari vaxandi, ekki bara hvað varðar efnahagsbrot heldur einnig á fjölmörgum öðrum sviðum. Auðvitað er það alltaf mikilvægt en á erfiðleikatímum er alveg sérstaklega mikilvægt að hin almenna löggæsla og löggæslukerfið í það heila sé öflugt og njóti trausts. Það er gríðarlega mikilvægt. Þetta er viðfangsefni sem við þurfum að ræða síðar en ég vildi nota tækifærið til þess að taka undir þessi orð hv. þingmanns.