137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal kærlega fyrir ræðuna og fyrir ábendingarnar. Ég mundi kannski segja að það væri ástæða til að kalla málið aftur inn á milli 2. og 3. umr. til að ræða jafnvel þessar ábendingar því verið er að tala um að ákveðnir aldurshópar ættu í raun ekki að borga þetta útvarpsgjald. Þá er jafnvel spurning hvort setja þurfi einhverjar reglur líka varðandi lögaðila, að lögaðilar til dæmis þyrftu að vera á launaskrá til að þeir væru skyldugir til að borga þetta útvarpsgjald miðað við það sem þingmaðurinn var að nefna. Það er náttúrlega mikið áhyggjuefni að ef þú ert með fyrirtæki — ég skal bara viðurkenna að ég á fyrirtæki sem er ekki með neinn rekstur en heldur utan um ákveðna eign — en það er enginn starfsmaður sem starfar hjá fyrirtækinu. Þetta fyrirtæki mun þá væntanlega þurfa að borga útvarpsgjald samkvæmt því sem þingmaðurinn er að segja. Væntanlega þarf fjöldi svona fyrirtækja þá að borga þessa skatta þó að viðkomandi eigendur séu hvort sem er líka að borga útvarpsgjald sem einstaklingar.

Ég mælist því til þess að þetta mál fari aftur í nefnd milli 2. og 3. umr. og ég efast ekki um að það er ýmislegt sem við getum rætt áfram varðandi þessa breytingu þar inni.